Ráðherraábyrgð

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 18:01:24 (550)

[18:01]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa ábendingu varðandi Magnús Guðmundsson. Það er alveg rétt

sem fram kom og ég var nú að vitna til þess máls vegna þess að hann sagði af sér. Það er mjög fátítt í íslenskri stjórnmálasögu. Hann mat það þannig, hann fékk á sig dóm og hann sagði af sér á meðan málinu var áfrýjað til Hæstaréttar en síðan tók hann aftur við embætti, það er hárrétt.
    Ég ætla ekki að fara að rekja hér mál sem voru í kringum Albert Guðmundsson. Það er auðvitað alveg rétt að fleira en Hafskipsmálið og Útvegsbankinn kom þar inn í. En varðandi þessi síðustu orð hv. þm. Björns Bjarnasonar, þá hef ég alltaf litið þannig á að við hér á hinu háa Alþingi berum þá ábyrgð að veita ráðherrum aðhald og það er ekki Alþingi sem hefur vísað málinu til Ríkisendurskoðunar og ég lít ekki þannig á að þó að mál sé til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun, þá megi þau ekki skoðast af Alþingi eða ræðast á Alþingi. Við ræddum þetta nokkuð þegar hér var verið að ræða um SR-mjöl á sínum tíma, þá var skýrsla þar í undirbúningi, en málið var jafnframt rætt hér á Alþingi og þá kom það sjónarmið fram að það væri ekki eðlilegt að ræða málið á meðan það væri til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun. Það gæti hugsanlega haft áhrif bæði á skýrslu Ríkisendurskoðunar og málaferli sem þá voru í gangi. En mitt sjónarmið er það að ábyrgð Alþingis er af þeim toga að þar hlýtur umræða ávallt að fara fram. Við berum þvílíka ábyrgð hér í stjórnsýslunni og eigum að veita henni aðhald að umræða hlýtur ávallt að fara hér fram hvað sem er að gerast annars staðar í þjóðfélaginu.