Lækkun vaxta í bankakerfinu

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:49:58 (568)

[13:49]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið m.a. um vaxtaþróun ríkispappíra upp á síðkastið hefur athygli manna öðru fremur beinst að þeim ótrúlega vaxtamun sem lengi hefur haldist á milli ríkispappíra annars vegar og hins vegar viðskipta í bankakerfinu. Það hefur oft komið fram að allt frá því að vextir fóru að lækka í lok síðasta árs hefur bankakerfið setið eftir. Vextir í bankakerfinu eru ótrúlega háir og óeðlilega háir á hvaða mælikvarða sem mælt er. Það var t.d. þannig að um mitt árið í fyrra þegar verðbólgan hækkaði örlítið um skamma stund þá fylgdi bankakerfið eftir og vísaði til framtíðar og líklegrar verðþróunar. Nú er ekkert þannig að gerast. Erlendis þegar verið er að verðleggja vexti er það gert m.a. með skírskotun til líklegrar verðþróunar. Nú blasir hins vegar við að í fyrsta lagi er óeðlilegur munur á vaxtastigi ríkispappíra annars vegar og hins vegar í bankakerfinu og hitt að verðbólga er með því lægsta sem hér hefur þekkst og með því lægsta sem þekkist í löndunum í kringum okkur.
    Þess vegna hlýtur maður að spyrja hæstv. viðskrh. í ljósi þessa að það blasir við að það er ríkjandi ákveðin fákeppni á bankamarkaðnum --- bankarnir apa nánast eftir hver öðrum með ákvörðunum um vaxtastigið og vextir bankanna taka mjög lítið tillit til afkomu hvers banka fyrir sig --- þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. viðskrh. í ljósi þessa að nú blasir við að útlánsvextir bankakerfisins eru mjög háir og hafa ekkert lækkað í líkingu við þá lækkun sem hefur orðið á ríkisvíxlum, svo dæmi sé tekið. Svo annað dæmi sé tekið þá blasir það við að víxilvextir í bankakerfinu eru um 12%. Með hvaða ráðum verður reynt að hvetja til enn frekari lækkunar vaxtastigsins í bönkunum í landinu?