Lækkun vaxta í bankakerfinu

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:54:24 (570)

[13:54]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskrh. að vaxtamunur bankanna hefur í sjálfu sér lækkað. Það eru mjög gleðileg tíðindi og er auðvitað afleiðingin af því að bankarnir hafa verið að taka til í rekstri hjá sér og draga úr tilkostnaði í sínum eigin rekstri. Það er líka afleiðingin af því að nú er af kúfurinn vegna afskriftaútlána þannig að möguleikar bankanna til þess að minnka þennan vaxtamun eru til staðar. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskrh.
    Það sem hins vegar eftir stendur er sú staðreynd að munurinn á bankavöxtum annars vegar og vöxtum á ríkispappírum hins vegar er óeðlilega mikill. Ef við berum saman þennan mun eins og hann var áður en vextir ríkispappíra tóku að lækka á síðasta ári miðað við það sem er í dag þá blasir þetta við og er ómótmælanlegt. Þessi munur er óeðlilega mikill eins og málin standa í dag. Það er alveg rétt að skammtímavextir sums staðar erlendis hafa farið hækkandi aftur en það breytir ekki því að til skamms tíma var þessi munur sannarlega fyrir hendi og þá hafði bankakerfið möguleika til þess að aðlaga sig en gerði það ekki.
    Ég fagna því að hæstv. viðskrh. ætlar að taka upp viðræður við bankakerfið og vona að út úr því komi veruleg lækkun bankavaxta því til þess eru allar efnahagslegar forsendur.