Lækkun vaxta í bankakerfinu

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:55:48 (571)

[13:55]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Menn verða að líta á báðar hliðar þessa máls. Það sem er vandamál í bankakerfinu er mismunur innlánsvaxta og útlánsvaxta sem er of mikill og menn eiga við þær aðstæður mjög erfitt með að lækka útlánsvexti nema með því að lækka innlánsvexti um svipaðar prósentutölur. Það er nú einu sinni orðið svo að margir innlánsreikningar eru með vexti nálægt núllinu þannig að þeir bjóða sparifjáreigendum nánast enga vexti. Vandamálið í þessu sambandi er vaxtamunurinn. Ég hef skýrt af hverju hann er svona hár. Ég tel að það sé hægt að draga úr vaxtamun og enn frekar nú þegar afkoma bankanna fer batnandi og ég tel að það eigi að gera.