Lækkun vaxta í bankakerfinu

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:56:37 (572)

[13:56]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Síðasta yfirlýsing hæstv. ráðherra er mjög mikilvæg. Hann sagði: Ég tel að það sé hægt að draga úr vaxtamun bankanna. Þetta er auðvitað aðalatriði þessa máls vegna þess að það leiðir af því að ef það er skoðun hæstv. viðskrh. að hægt sé að draga úr vaxtamun bankanna þá er það um leið skoðun hæstv. viðskrh. að hægt sé að lækka útlánsvextina í landinu. Útlánsvextir í landinu hafa verið of háir og útlánsvextirnir í landinu hafa valdið því að það hefur ekki tekist að efla þann hagvöxt sem okkur hefur verið nauðsynlegur til þess að bæta atvinnustigið og efnahagsástandið í landinu meira en orðið er. Þess vegna er það mjög mikilvægt sem hæstv. viðskrh. sagði áðan um það að hann teldi að hægt væri að draga úr vaxtamun því að af því leiðir að það er þá hans skoðun um leið að hægt sé að lækka bankavextina í landinu. Þetta er mjög mikilvægt og ég óska eftir því við hæstv. viðskrh. að hann ítreki þetta og árétti að þetta sé hans sjónarmið vegna þess að það er þá væntanlega það veganesti sem hæstv. ráðherra fer með í viðræðurnar við bankana á föstudaginn kemur.