Ofbeldisefni í myndmiðlum

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 13:58:55 (574)

[13:58]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini fsp. minni til hæstv. dómsmrh. Ofbeldi meðal barna og ungmenna hefur með hryggilegum hætti enn einu sinni komist til umræðu hér á landi og annars staðar. Meðal þess sem menn beina sjónum sínum að er ofbeldisfullt myndefni, bæði í sjónvarpi og kvikmyndahúsum, en ekki síður á myndböndum og í tölvuleikjum. Þó það sé síður en svo það eina sem ástæða er til að hafa áhyggjur af í þessu sambandi þá er mikilvægt að flestra mati að fylgja því fast eftir að börn og óharðnaðir unglingar hafi ekki aðgang að slíku efni. Við kvennalistakonur fengum samþykkta tillögu um könnun á ofbeldi í myndmiðlum árið 1991 og fyrirheit hæstv. menntmrh. á síðasta vetri um að þeirri ályktun verði fylgt eftir. En ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvaða úrræði dómsmrh. og yfirvald dómsmála og löggæslu hafa til þess að hindra það að börn og ungmenni hafi aðgang að ofbeldisefni í kvikmyndahúsum, á myndböndum og í tölvuleikjum. Að einhverju leyti er hægt að vísa til laga og reglna um vernd barna og ungmenna og kvikmyndaeftirlit og e.t.v. fleiri staða þar sem lög taka á þessum málum. En mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra telur ástæðu til að gera sérstakar ráðstafanir til að herða eftirlit með þessum málum, sé þeim ekki nógu vel framfylgt nú.