Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 14:14:04 (586)

[14:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga ársins 1994. Það er að finna á þskj. 66 og er jafnframt 66. mál þingsins. Áður en ég vík að sjálfu frv. vil ég nefna að nokkur mál eru enn til sérstakrar skoðunar á milli ráðuneyta og þurfa e.t.v. að koma til kasta þingnefndarinnar síðar. Þar er einkum um að ræða rekstrarhalla nokkurra stofnana sem verið er að leggja mat á og gera tillögur um úrbætur. Þá vildi ég vekja sérstaka athygli á því að greiðsluheimildirnar sem sótt er um með frv. eru mun hærri en áætluð útgjöld ársins. Stafar það af flutningi fjárheimilda frá fyrra ári. Allar horfur eru á að ámóta miklar greiðsluheimildir standi eftir ónýttar í lok þessa árs og flytjist til næsta árs, nema að væntanlega dregur nokkuð úr yfirfærslu stofnkostnaðarheimilda. Þess vegna er vitaskuld gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði í samræmi við endurskoðaða áætlun ársins, eins og ég mun reyndar gera betur grein fyrir hér á eftir, og að fluttar fjárheimildir frá fyrra ári komi þar ekki til viðbótar. Ég vek sérstaka athygli á þessu hér þar sem nokkuð hefur borið á því í umfjöllun fjölmiðla einkum og sér í lagi að ekki væri gerður nægilega skýr greinarmunur á greiðsluheimildum ríkissjóðs og áætlun um útkomu ársins. Í greinargerð frv. er farið yfir endurskoðaða áætlun um ríkisfjármálin og gefnar skýringar á einstökum atriðum mála. Við þessa 1. umr. mun ég því ekki fjalla um einstakar greinar frv. heldur gera grein fyrir innihaldi frv. í stórum dráttum.
    Við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs var gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs umfram tekjur yrðu 9,6 milljarðar kr. Svigrúm til aðgerða á gjaldahlið var takmarkað. Þar var einkum um að kenna útgjöldum sem leiða af erfiðu árferði, eins og auknum atvinnuleysisbótum, í öðru lagi skuldbindingum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga, svo sem átak í vegaframkvæmdum, og í þriðja lagi áframhaldandi vexti í kerfisbundnum útgjöldum á borð við almannatryggingar og vaxtagjöld. Horfur voru á að fyrstu tveir þættirnir mundu jafnframt þrengja mjög að tekjuöflun ríkissjóðs. Þannig var áætlað að samdráttur í efnahagsstarfseminni mundi skerða tekjur ársins 1994 um tæplega 2 milljarða kr. Þá var talið að breytingar í skattamálum sem ákveðnar voru til að greiða fyrir gerð kjarasamninga yrðu til þess að lækka tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarða kr. En nú eru horfur á að rekstrarhalli ríkissjóðs verði 10,9 milljarðar kr. Ef þetta gengur eftir verður frávikið frá fjárlögum um 1,2 milljarðar kr. sem er mun minna en verið hefur um langt skeið.
    Rekstrarafkoman í heild hefur ekki versnað þegar litið er á afkomu ríkissjóðs nema sem svarar 1% af tekjuáætlun fjárlaga en eigi að síður er um að ræða talsverðar breytingar bæði á gjöldum og tekjum. Þannig er nú talið að tekjur ársins 1994 verði um 106,8 milljarðar kr. eða um 2,6 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Veldur þar mestu hagstæðari efnahagsframvinda en ætlað var í lok síðasta árs.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti biður um að það sé hljóð í salnum.)
    Í stað þess að landsframleiðslan dragist saman um 2% eins og spáð var í fjárlögum bendir endurskoðuð þjóðhagsspá nú til að hagvöxtur verði nálægt 2% á árinu eða tæplega 2%. Efnahagsbatinn kemur fram í aukinni veltu í flestum atvinnugreinum en einnig má merkja hann í betri afkomu fyrirtækja og auknum tekjum einstaklinga. Að samanlögðu er áætlað að þessir þættir skili ríkissjóði um 3,5 milljörðum kr. í auknum veltu- og tekjutengdum sköttum. Á móti kemur að tekjur af bifreiðainnflutningi og bensínsölu verða um 900 millj. kr. lægri en í áætlun fjárlaga.
    Til þess að fá glögga mynd af helstu frávikum tekna og gjalda frá fjárlögum ársins 1994 er rétt að benda á yfirlit sem birt er á bls. 27 í greinargerð með frv.
    Á gjaldahlið stefnir í nokkru meira frávik á fjárlögum en á tekjuhlið eða sem nemur um 3,9 milljörðum kr. og verða heildarútgjöld ársins þá um 117,6 milljarðar kr.
    Nærri tveir þriðju hlutar aukinna útgjalda frá fjárlögum, eða um 2,4 milljarðar kr., eiga rætur að rekja til ákvarðana ríkisstjórnar og Alþingis, einkum um aukin framlög vegna fjárfestingar og í tengslum við kjarasamninga.
    Í annan stað má rekja yfir 1 milljarð kr. af útgjaldaaukningunni til þess að ýmis áform um sparnað og aðhald hafa ekki gengið eftir, einkum og sér í lagi í heilbr.- og trmrn.
    Afgangurinn skýrist að mestu annars vegar af því að gert er ráð fyrir að óhafnar viðhalds- og stofnkostnaðarheimildir frá 1993 sem nýttar verða í ár verði um 400 millj. kr. hærri en sams konar heimildir sem færast til næsta árs, og hins vegar af ýmsum ófyrirséðum smærri útgjaldatilefnum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara mörgum orðum um tekjuhlið þessa frv. en vísa þar til greinargerðarinnar en þar er ítarlega fjallað um það hvernig efnahagsbatinn skilar ríkissjóði heldur meiri tekjum en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum íslenska ríkisins fyrir yfirstandandi ár. Ef litið er hins vegar á útgjöldin, þá má rifja það upp að við afgreiðslu fjárlaga 1994 voru útgjöld ríkissjóðs áætluð um 113,8 milljarðar kr. samanborið við 112,9 milljarða kr. árið 1993.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti biður um hljóð í hliðarsal.)
    Nú er talið að útgjöldin verði 3,9 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum eða um 117,6 milljarðar kr. Rekstrarkostnaður er nú talinn aukast um tæplega 700 millj. kr. og verður um 44 milljarðar kr. í árslok. Á föstu verðlagi hefur rekstrarkostnaður ríkisins þá lækkað um 1,4 milljarða kr. frá útkomu liðins árs og er það vissulega árangur sem ástæða er til þess að leggja áherslu á. Ég endurtek að eftir endurskoðaða útgjaldaáætlun í rekstrarkostnaði sýnist rekstrarkostnaðurinn lækka verulega milli ára. Þetta ber að hafa í huga, ekki síst vegna þess að um örlitla aukningu er síðan að ræða í fjárlögum eða í fjárlagafrv. vegna næsta árs.
    Í hækkun rekstrargjalda vega þyngst um 450 millj. kr. útgjöld í tengslum við nýja og eldri kjarasamninga. Í annan stað er talið að útgjöld ríkissjóðs aukist um 300 millj. kr. vegna rekstrarhalla sjúkrahúsa. Önnur ný útgjaldatilefni eru af ýmsum toga eins og nánar er greint frá í athugasemdum við einstaka liði frv. Á móti lækka rekstrarútgjöld um rúmlega 200 millj. kr. þar sem ákveðið hefur verið að eftirstöðvar í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins renni til reksturs Hafrannsóknastofnunar.
    Neyslu- og rekstrartilfærslur eru áætlaðar 45,6 milljarðar kr. í stað 44 milljarða kr. í fjárlögum og hækka þannig um 1,6 milljarða kr. Um þrír fjórðungar umframútgjaldanna eða 1,2 milljarðar kr. eru vegna lífeyris- og sjúkratrygginga. Þar af eru 300 millj. kr. vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um auknar eingreiðslur til lífeyrisþega og 800 millj. kr. vegna ýmissa sparnaðaráforma og aðhaldsaðgerða sem ekki hafa gengið eftir í sjúkratryggingum.
    Viðhald og stofnkostnaður valda svipuðu fráviki á gjaldahlið og tilfærslur. Þessi útgjöld eru nú áætluð 16,5 milljarðar kr. en það er hækkun, ég endurtek, hækkun um 1,6 milljarða kr. frá fjárlögum. Því sem næst öll útgjaldaaukningin á rætur að rekja til sérstakra ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi eru útgjöld vegna kaupa á björgunarþyrlu 535 millj. kr. Í öðru lagi var gengið frá kaupum á húsnæði undir aðalskrifstofu utanrrn. fyrir 300 millj. kr. Þess skal getið að seljendur hússins eru opinberir aðilar, annars vegar Framkvæmdasjóður og hins vegar Byggðasjóður. Þá var ákveðið að bæta Vegagerðinni 350 millj. kr. viðbótarkostnað vegna vatnsaga í Vestfjarðagöngum og samþykkt lög um 300 millj. kr. framlag til að stuðla að samruna sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum. Loks er talið að óhafnar viðhalds- og stofnkostnaðarheimildir frá 1993 sem nýttar verða í ár verði um 400 millj. kr. hærri en sams konar heimildir sem færast til næsta árs.
    Ég tel ástæðu til að geta þess hér vegna gagnrýni sem fram hefur komið um samdrátt á fjárfestingarlið fjárlagafrumvarpsins, sem reyndar er ekki hér til umræðu, að þá er það tæplega 25% samdráttur frá áætlun yfirstandandi árs en þá ber að geta þess að sú áætlun sýnir talsvert miklu meiri fjárfestingar en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins þannig að þegar tekið hefur verið tillit til þessara liða sem ég hef nú lýst þá er samdrátturinn auðvitað miklu minni þegar við berum saman fjárlagafrv. og fjárlög yfirstandandi árs. Þetta nefni ég sérstaklega að gefnu tilefni.
    Næst vil ég örstutt líta til lánahreyfinganna. Hrein lánsfjárþörf er nú áætluð 20,6 milljarðar kr. í ár og heildarlánsfjárþörfin 36,5 milljarðar kr. eða um 8,8 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Sú aukning skýrist að sjálfsögðu að mestu af því að ríkissjóður hefur þurft að hafa milligöngu um 7 milljarða kr. lántökur fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem innlend lánsfjáröflun stofnunarinnar hefur ekki gengið sem skyldi. Lakari rekstrarafkoma ríkissjóðs en áætlað var eykur lánsfjárþörfina um 1,2 milljarða kr. og að auki hækka lánveitingar til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins um hálfan milljarð kr.
    Talið er að unnt verði að afla lánsfjár að jöfnu á innlendum og erlendum lánamarkaði. Um síðustu áramót var innstæða ríkissjóðs hjá Seðlabanka um 4 milljarðar kr. Þess vegna er nokkurt svigrúm til að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs með því að lækka sjóðstöðuna hjá Seðlabankanum.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess nú við 1. umr. málsins að rekja einstakar greinar. Ég gat þess í upphafi að fjárln. mun að sjálfsögðu skoða þetta mál vandlega eins og venja er um sams konar frumvörp sem flutt eru á haustin. Það er einnig alkunna að endanlegt fjáraukalagafrv. kemur eftir áramót, venjulega í febrúar, og sami háttur verður á nú. Það hefur stundum borið á því í umræðum um fjáraukalög að menn hafa reynt að leggja saman greiðsluheimildartölur en niðurstaðan á undanförnum árum hefur verið sú að heimildirnar hafa ekki að fullu verið nýttar og afkoma ríkissjóðs þess vegna reynst talsvert betri en spádómar hafa verið uppi um, einkum og sér í lagi af hálfu stjórnarandstöðunnar þegar rætt hefur verið um fjáraukalög á undanförnum árum. Ástæðurnar eru af mörgum toga. Það til að mynda ruglar nokkuð dæmið að leyft hefur verið að færa bæði skuldbindingar og eignir milli ára og það má búast við því að bráðlega nái sú upphæð sem þannig færist á milli ára því hámarki sem við er að búast. Þetta auðvitað eykst fyrstu árin en síðan ættu þessar tölur að verða nokkuð stöðugar frá ári til árs.
    Ég vil ítreka það, sem margoft hefur reyndar komið fram af minni hálfu og reyndar af hálfu annarra stjórnarþingmanna jafnt sem stjórnarandstöðuþingmanna, að smám saman hafa verið gerðar þær breytingar á framkvæmd fjárlaga að auðveldara hefur verið fyrir stjórnendur fyrirtækja og stofnana ríkisins að vinna eftir þeim með líkara hætti og gerist og gengur hjá stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Það er úreltur hugsunarháttur að hugsa eingöngu á milli áramóta og keppast við að eyða greiðsluheimildum í desember ef eitthvað er eftir og/eða að halda að fyrirgefning syndanna verði um hver áramót. Við verðum að líta á ríkisreksturinn í lengri tíma og hafa það í huga að ef menn af einhverjum ástæðum fara yfir, fram úr greiðsluheimildum eitt árið, þá má búast við því að menn þurfi að herða mittisólina á næsta eða næstu árum og með sama hætti er það úrelt að taka greiðsluheimildir af fyrirtækjum og stofnunum ef sýnt er að þeir hafa haldið eftir heimildum með eðlilegum skýringum, t.d. vegna þess að dregist hefur að fjárfesta í þeim hlutum eða fjárfesta sem áætlað hafði verið á yfirstandandi fjárlagaári. Þetta hefur margoft verið rætt hér í umræðum á Alþingi og innan fjárln. og ég vil þakka fyrir þann mikla stuðning sem fram hefur komið af hálfu hv. alþm. við breyttar reglur um leið og ég viðurkenni það að sjálfsögðu að allar þessar nýju reglur þarf auðvitað að slípa og móta í tímans rás.
    Sömuleiðis er með ýmsar aðrar reglur sem snerta samkipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins eins og t.d. ýmsir ráðstöfunarliðir sem teknir voru upp í tíð fyrri ríkisstjórnar og ég held að hafi verið til mikillar fyrirmyndar og var auðvitað gert til þess að losna við marga smáa liði sem ellegar hefðu farið inn í fjáraukalagafrv. á haustin eins og tíðkaðist hér árum saman. Þess vegna er það þannig nú að í fjáraukalagafrv. er að finna yfirleitt stærri mál sem borin eru undir Alþingi, enda verðum við að ætlast til þess að ráðherrar geti nýtt ráðstöfunarfé sitt til þess að standa straum af kostnaði við óvænt útgjöld sem koma upp á árinu. Þetta segi ég hér vegna mikilla umræðna sem hafa orðið í þjóðfélaginu um þennan lið en jafnframt er ástæða til að taka fram að auðvitað þarf að vera sæmilega gott samkomulag um það hvernig slíkir fjármunir séu notaðir, að það sé fyrst og fremst innan þess verksviðs sem heyrir undir viðkomandi ráðuneyti og auðvitað hlýtur Ríkisendurskoðun að fylgjast með því og yfirskoðunarmenn reikninga að eðlilega sé farið með þetta fé eins og allt fjármagn sem er í greiðsluheimildum sem Alþingi samþykkir í fjárlögum. Þetta segi ég að því gefna tilefni að að undanförnu hafa átt sér stað nokkrar umræður um þessa þætti.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess þó að ég hafi hér ærinn tíma til þess að flytja lengri framsöguræðu og vænti ég þess að þetta frv. geti að lokinni 1. umr. farið til hv. fjárln. og því verði vísað til 2. umr.