Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:13:01 (592)

[15:13]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það var dálítið fróðlegt að hlusta á þessa umræðu áðan um fjárhags- og efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og vaxtastefnuna sem er nú greinilega að springa í höndunum á hæstv. ríkisstjórn þrátt fyrir viðleitni hennar til þess að reyna að halda vöxtum niðri, auðvitað góð viðleitni og nauðsynleg fyrir atvinnulífið og fyrir heimilin í landinu. En þá er það því miður að gerast að ríkisstjórnin ræður ekki við þetta. Það var kannski annað merkilegt líka að þrátt fyrir það að hér sætu undir þessari umræðu allri saman hæstv. viðskrh. þá heyrðum við ekki eitt einasta stakt orð frá honum, hann a.m.k. notaði sér ekki rétt sinn til andsvara við ræðu hv. 8. þm. Reykn. um málið en e.t.v. á hann eftir að gera það síðar í dag eða síðar í þessari umræðu. En umræðan um ECU-bréfin er eðlileg, það hlýtur að vera eðlilegt að við spyrjum út í það og fáum að heyra álit hæstv. ráðherra á því máli hvernig að því hafi verið staðið og hverjar þeir halda að verði afleiðingarnar. Hverjar verða afleiðingar t.d. í bankakerfinu? Hvað segir hæstv. viðskrh. bankamálanna um áhrifin af þessari skuldabréfaútgáfu og þeim vaxtakjörum sem þar voru í boði?
    Mig langar til þess að nefna það þó ég hafi reyndar ekki ætlað að gera vaxtamálin að aðalefni minnar ræðu heldur fjalla svolítið meira um frv. sjálft sem hér er til umræðu og geri það á eftir, en mig langar samt í framhaldi af þessari vaxtaumræðu að benda á það að vextir í bankakerfinu, meðalvextir verðtryggðra bankalána eru núna um 8,5% samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Seðlabankanum í dag og það er nánast sama prósentutala vaxta og var þegar hæstv. núv. ríkisstjórn tók við völdum, þá voru þessir meðalvextir rétt um 8,5%, reyndar aðeins undir og eru nánast á sömu prósentutölum í dag. En allan tímann þessi ár undanfarið --- frá miðju ári 1991, allt árið 1992 og fram undir árslok 1993 --- voru vextir þessir miklu, miklu hærri en hafa nú náð að vera í svipuðu fari eins og þeir voru í upphafi valdatíðar þessarar hæstv. ríkisstjórnar og nú er ekki nokkur vafi á því að áhrifin af þessari nýju bréfaútgáfu verða auðvitað þau að bankavextir munu hækka, þeir hljóta að hækka í kjölfar þessarar nýju bréfaútgáfu. Ég þykist nokkurn veginn viss um að þó við teldum nú að svigrúm væri fyrir vaxtalækkun í bankakerfinu og menn hafa talað um það hér í umræðum um ríkisfjármálin á undanförnum dögum þá er allt sem bendir til þess að það stefni í þveröfuga átt núna eftir þessa skuldabréfaútgáfu. Það má líka minna á að það seldist ekkert af ríkisskuldabréfunum, 5%-vaxtabréfum hæstv. fjmrh., þegar hann bauð ECU-bréfin, ekki eitt einasta tilboð kom ef ég man rétt. Ráðherra staðfestir það þá hér á eftir eða leiðréttir ef þetta er ekki rátt hjá mér. Ég held að það hafi ekki komið eitt einasta tilboð í ríkisskuldabréfin hans þegar hann bauð um leið ECU-bréfin. En tilboðin sem bárust komu öll í þessi nýju bréf með háu vöxtunum.
    Nóg um það að sinni, hæstv. forseti. Ég ætla að snúa mér aðeins að því að ræða um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994, sem hér er til umræðu, og auðvitað tengist þessi vaxtastefna og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar því sem þar er að gerast, því sem þar er verið að boða og því sem þar kemur fram. Það er vissulega gott að fá þessi fjáraukalög svo tímanlega inn í þingið til umræðu á meðan þingið er að fjalla um frv. til fjárlaga fyrir næsta ár þannig að við sjáum þennan samanburð, sjáum hvað er á ferðinni, sjáum hvaða vanda við búum við í ríkisfjármálunum og hvað hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera á þessu ári sem nú er að líða. Hvernig henni hefur tekist að standa við þau fjárlög sem samþykkt voru hér fyrir ári síðan eða svo.
    Það má auðvitað nefna að það eru nokkrir smærri liðir hér sem skipta ekki öllu máli en vekja þó til umhugsunar og við þurfum vissulega að hafa til skoðunar þegar við fjöllum um fjárlög fyrir næsta ár. Ég nefni t.d. uppgjörið við sveitarfélögin sem hér er sagt að sé loksins búið að gera endanlega upp með þessari fjárveitingu sem hér er lögð til. Ég nefni embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli sem hér fær aukafjárveitingu. Það segir okkur að áætlun um hans fjárreiður í fjárlögunum var röng eins og reyndar var talið strax í fyrra og sýnir sig nú að stóðst ekki. Ég nefni vistheimilið á Sólheimum í Grímsnesi sem ég vona þó að sé að nást endanleg niðurstaða með. Hér er lögð til aukafjárveiting til þeirrar stofnunar. Það a.m.k. gefur okkur ástæðu til að fara yfir það í sambandi við fjárlagagerðina og vera viss um að nú séum við búin að ná endum í því erfiða máli. Ég nefni t.d. veiðistjóraembættið en þar er einnig lögð til viðbótarfjárveiting, átti að skera og var skorin verulega niður fjárveiting til þess embættis í fjárlögum yfirstandandi árs. Það sýnir sig hins vegar á þessu fjáraukalagafrv. að það gekk ekki upp. Nú er aftur lagt til að það eigi að skera verulega niður fjárveitingar til þess embættis á fjárlögum næsta árs. Er líklegt að það standist? Ég nefni þessi litlu dæmi til viðvörunar um það hvað frv. var í fyrra og fjárlögin fyrir yfirstandandi ár voru á mörgum sviðum óraunhæf og á það var bent. Þar að auki má minna á að í þeirri tillögu, sem varðar veiðistjóra og getið er um í greinargerð fjárlagafrv. að kalli á lagabreytingu, er auðvitað verið að færa byrðar á sveitarfélögin, ekki stóra upphæð en það er einu sinni enn höggvið í þann sama knérunn að það er verið að færa skuldbindingar frá ríkinu sem það hefur lögum samkvæmt tekið að sér að annast yfir á sveitarfélögin án samráðs hygg ég. Ég á ekki von á því að þessi tilfærsla eða breyting sem hér er boðuð hafi verið borin undir sveitarfélögin. En ég sagði allt eru þetta smámál og aðeins nefnd til upprifjunar og tínd hér til til að minna okkur á að það þarf að skoða bæði stórt og smátt í því fjárlagafrv. sem við erum nú að fjalla um.
    Í þessu fjáraukalagafrv. er hins vegar stóra málið hin stórauknu útgjöld ríkissjóðs. Útgjöld langt umfram fjárlög ársins. Þar er um að ræða 4 milljarða kr. Hæstv. ráðherra sagði það hér í framsöguræðu sinni áðan að ekki séu viðbótarútgjöld boðuð í þessum fjáraukalögum nema upp á 1,2 milljarða kr. og sé það minnsta sem um geti um langt árabil. Þetta kalla ég nú að halla nokkuð staðreyndum. Vissulega er það rétt, því betur skulum við segja, að tekjuhliðin hefur einnig hækkað. Hún hefur hækkað um sem nemur 2,5 milljörðum kr. eða áætlað að hún muni gera það á þessu ári og það lagar að sjálfsögðu þennan mikla halla sem nú er á útgjöldunum. Það er gott að tekjurnar aukist. Það eru ýmis utanaðkomandi áhrif sem hafa haft áhrif á það. Það hefur verið meiri afli, það hefur verið betri afkoma hjá sjávarútveginum, það hefur verið ívið betri afkoma hjá fyrirtækjunum í landinu en áætlað var og það er efnahagsbati erlendis sem hefur gert það að verkum að við höfum getað selt okkar afurðir. Þetta hefur þýtt það að velta í þjóðfélaginu og tekjur ríkissjóðs hafa verið nokkuð meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir. En það hefði auðvitað verið gott og nauðsynlegt að nota þessar auknu tekjur til að draga úr hallanum á ríkissjóði, til að reyna að lækka hallann sem var ærinn fyrir. En það verður ekki, þvert á móti hækkar hann um á annan milljarð króna af því að útgjöldin hafa farið öll úr böndunum sem nemur 4 milljörðum kr. Við skulum aðeins líta nánar á þessi útgjöld sem eru upp á 4 milljarða kr.
    Það kemur okkur sumum ekki mjög á óvart að svo skuli hafa farið vegna þess að við höfum bent á það margsinnis, gerðum það ítarlega við fjárlagaumræðuna í fyrra, að fjárlögin væru í veigamiklum atriðum óraunhæf. Ýmsar stofnanir hafa þó staðið við fjárlögin og haldið sig vel innan þess ramma og það er vel. Það stafar auðvitað af því að það er meiri stöðugleiki í efnahagsmálum, það er sama og engin verðbólga og stofnanirnar hafa barist við að halda sig innan fjárlagarammans sem þeim er skammtaður þó svo við vitum það af fréttum nú nýlega, og ég kem kannski að því síðar, virðulegur forseti, ef ég hef tíma til, hvað er að gerast t.d. hér á sjúkrahúsunum í höfuðborginni Reykjavík, vegna þess að fjárlagaramminn er auðvitað allt of naumt skammtaður. En menn eru að berjast við að halda sig innan hans. Það er hins vegar eins og fyrri daginn ríkisstjórnin sjálf sem fellur á prófinu. Það eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem valda því að fjárlagramminn springur. Sumt af þessu eru ákvarðanir sem þingið stóð saman að og allir voru meðvitaðir um að mundi kosta mikla fjármuni eins og t.d. kaup á nýrri björgunarþyrlu og er ekki mikið um það að segja, það er ákvörðun sem var tekin og var reyndar búin að vera lengi í fæðingu og var búið að taka langan tíma að taka og koma sér niður á. En ég nefni þetta sem dæmi. Annað má auðvitað nefna að það þarf að glíma við óvænt vandamál sem kom upp við gerð jarðganga á Vestfjörðum og þýðir ekkert annað en horfast í augu við svoleiðis staðreyndir. Á því verða menn að taka. En a.m.k. helmingurinn af þessum 4 milljarða kr. halla eru auðvitað hlutir sem ríkisstjórnin gat séð fyrir fram og var í mörgum tilfellum bent á.
    Ég nefni svokallaðar eingreiðslur til almannatryggingakerfisins og atvinnuleysisbótaþeganna sem kostuðu 300 millj. kr. í aukin útgjöld. Ég nefni kjarasamningana sem taldir eru kosta 450 millj. kr. í aukaútgjöld. Ég nefni rekstrarhalla sjúkrahúsanna upp á meira en 300 millj. kr. og svo síðast en ekki síst sjúkratryggingarnar, sem voru nú dýrastar og fóru mest fram úr, upp á 800 millj. kr. af því þar var algjörlega óraunhæf áætlun og óraunhæfar hugmyndir sem lagt var upp með við fjárlagagerð í fyrra og því miður virðist nú eiga að reyna að leggja einu sinni enn út á þann ólgusjóð í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eins og greinargerðin ber með sér og tölurnar en það verður nú rætt síðar. Í viðbót við þetta er svo ýmislegt annað sem hér er tínt til í greinargerð fjárlagafrv. upp á 200--300 millj. kr. Hér tel ég því vera um 2 milljarða kr. eða helminginn af þessum viðbótarhalla að ræða, allt upphæðir eða tölur sem mátti sjá fyrir að meira eða minna leyti.
    Ég ætla aðeins að fara nánar yfir það eða rökstyðja það mál mitt að telja að þetta hefði mátt sjá og þetta hafi verið fjárhæðir sem ríkisstjórnin var í raun að blekkja sjálfa sig með að áætla ekki fyrir eða gera ekki ráð fyrir við fjárlagagerðina sjálfa. Fyrst má nefna eingreiðslurnar upp á 300 millj. kr. Staðreyndin er sú að á árinu 1993 kostuðu þessar eingreiðslur 720 millj. kr. Það var upphæðin sem þessar eingreiðslur kostuðu á árinu 1993. Hins vegar var ekki áætlað í fjárlagafrv. og á fjárlögum þessa árs fyrir þessari upphæð nema 400 millj. kr. Ég segi að menn voru í raun að blekkja sjálfa sig með því að halda að þeir gætu lækkað tekjur og afkomu lífeyrisþega, ellilífeyrisþega, öryrkja og bótaþega almannatrygginga, um þessa upphæð. Ég tel að það hafi verið algerlega óraunhæft og mátt sjá það fyrir að þessar eingreiðslur, jafnvel þótt þær væru ekki samningsbundnar og gerðar í kjölfar samninga aðila vinnumarkaðarins þá máttu menn vita að til þeirra kæmi og þær væru óumflýjanleg útgjöld ríkissjóðs.
    Varðandi kjarasamningana þá tel ég að það megi segja það sama með það. Auðvitað setja menn kannski ekki inn í fjárlög nákvæmlega þá tölu sem menn eiga von á að samið verði um. Það er ekki sett inn á rekstrarkostnað Ríkisspítala einhver upphæð af því að það eigi eftir að semja við einhverjar stéttir sem þar vinna svo ég nefni dæmi, það gera menn ekki. En menn áætla fyrir því og það er reyndar gert í fjárlagafrv. næsta árs, sett inn á ákveðinn fjárlagalið undir fjmrn. til launa og verðlagsmála ákveðin upphæð sem menn gera ráð fyrir að þurfi óhjákvæmilega að greiða vegna komandi kjarasamninga. Hvort sem sú upphæð stenst svo eða ekki, það er annað mál og auðvitað getur ekki annað en reynslan leitt í ljós. En ég tel að það hafi verið blekking að gera ekki ráð fyrir að þessir lausu samningar, einkum við heilbrigðisstéttir, kostuðu fjármuni, það hefði verið hægt að áætla fyrir þeim á einhverjum hliðstæðum fjárlagalið eins og nú er áætlað að gera í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Hér er um að ræða 450 millj. kr. sem þessir nýju samningar eru taldir valda í auknum útgjöldum ríkisins.
    Til þess að gæta nú alls réttlætis má nefna að nokkur upphæð af því, ef ég man rétt um 80 millj. kr., mun vera vegna deilumáls eða dóms sem kveðinn var upp vegna mála flugumferðarstjóra. Og varla var hægt að gera ráð fyrir að fyrir því væri áætlað, samt er auðvitað ljóst að hér voru dulin útgjöld sem skiptu hundruðum millj. kr.
    Þá langar mig að fara aðeins yfir sjúkratryggingakaflann. Það er nú reyndar skrautleg lesning ef allt væri tínt til sem þar átti að gera samkvæmt fjárlagafrv. í fyrra eins og það lá fyrir og var reyndar mikil umræða um. ( GHelg: Er ráðherrann ekki viðstaddur?) Ég sé reyndar að hæstv. ráðherra er hér í hliðarherbergi og ég þykist vita að hann sé að fylgjast ítarlega með þessari umræðu þannig að ég geri ekki sérstakar athugasemdir við það af því að ég sé að hann er hér í næsta nágrenni.
    Ég ætla að leyfa mér að fara, aðeins til upprifjunar fyrir hv. þm. og hæstv. ráðherra, yfir það sem við ræddum ítarlega um hér í fyrra varðandi möguleikana á því að ná þeim sparnaði sem fjárlögin þá eða fjárlagafrv. þá gerði ráð fyrir varðandi sjúkratryggingarnar. Það geri ég sérstaklega vegna þess að mér sýnist að það eigi að leita sömu leiða aftur núna fyrir næsta ár, leiða sem ekki tókst að framkvæma á þessu ári. Leiða sem boðaðar voru í fjárlagafrv. en náðu ekki fram.
    Þar var fyrst gert ráð fyrir því þegar frv. kom fram að spara í sjúkratryggingunum um 730 millj. kr. Það átti að gerast með nokkrum tilteknum aðferðum. Í fyrsta lagi átti að gefa út þessi margumræddu og frægu heilsukort og ég ætla nú ekki að eyða löngum tíma í það. Það var ákveðið fljótlega að falla frá þeim, það voru 400 millj. kr. sem þar töpuðust. Aðrir liðir sem átti að spara á voru t.d. í nýjum samningum við lækna um greiðslufyrirkomulag til þeirra upp á 30 millj. kr., það átti að endurskoða greiðslur fyrir röntgenmyndatökur og rannsóknir upp á 120 millj. kr., það átti að endurskoða lyfjafyrirkomulag, fyrirkomulag á lyfjaverðlagningu og spara 150 millj. kr. og síðan að bjóða út tannlækningar og spara 30 millj. Þetta var það sem var í viðbót við 400 millj. kr. heilsukortin. Nú þegar heilsukortin féllu út þá var auðvitað farið að leita mjög að sparnaði til að mæta þeim útgjöldum. Það var afar skemmtilegt hvernig það bar að hjá hv. fjárln., hugmyndir heilbrrn. og þáv. hæstv. heilbrrh. um hvernig hann ætlaði að ná þessum

sparnaði. Við fengum ítarlegt bréf, mig minnir að það hafi verið 2. des. eða svo, þar sem gert var ráð fyrir að ná fram þessum 400 millj. með öðrum aðferðum.
    Það átti í fyrsta lagi að lækka kostnað vegna hjálpartækja um 100 millj. Það átti að lækka kostnað vegna utanferða, svokallaðan erlendan sjúkrakostnað, um 60 millj. Það átti í þriðja lagi aftur að lækka tannlæknakostnaðinn og nú ekki um 30 heldur 100 í viðbót, þ.e. 130. Það hafði uppgötvast þarna á þessum tveimur mánuðum að það væri hægt. Sjúkradagpeninga átti að lækka um 20 millj., sjúkraþjálfun átti að spara um 20 millj. og svo auðvitað af því að það var talið að það væri svo auðvelt að spara í lyfjum, þá átti að bæta svo sem eins og 100 millj. við þar, við þær 150 sem áður höfðu verið boðaðar. 100 millj. átti að taka í lyfjalækkun. Það átti reyndar næstum eingöngu að bitna á einhverju sem kölluð voru magasárslyf því að menn átu svo ótæpilega af þeim.
    Það hafði reyndar gleymst að nokkru áður hafði verið boðað að spara enn frekar í sjúkratryggingum um 180 millj. kr. án þess að það hafi nokkurs staðar verið greint frá því hvernig það ætti að vera. Þegar farið var að spyrjast fyrir um það kom annað bréf fjórum dögum seinna, 6. des. Hitt var 2. des. eins og mig minnti. 6. des. kom nýtt bréf. Hvað skyldi nú eiga að spara, hvernig átti að ná þessum 180 millj.? Það átti enn að lækka hjálpartækin um 50 millj. Það átti að lækka erlenda sjúkrakostnaðinn um 15 millj. Það átti að draga úr sjúkradagpeningum og sjúkraþjálfun um 15 millj. og enn átti að spara 100 millj. í lyfjum. Og hvernig átti að gera það? Það átti að láta menn éta minna af magasárslyfjum. Í bréfinu þessu góða sem kom 6. des., fjórum dögum eftir fyrra bréfið.
    Jæja. Það gerist síðan fyrir 3. umr. fjárlaga að þá muna menn nú allt í einu eftir því eða átta sig á því að það er fallið frá því að tekjutengja lífeyristryggingar. Þar átti að spara 200 millj., með því að tekjutengja lífeyristryggingarnar. Það hafði uppgötvast að það yrði nú ekki gert, það væri ekki framkvæmanlegt og þess vegna yrði með einhverjum ráðum að ná sparnaði upp á 200 millj. kr., sem átti að spara í lífeyristryggingunum, einhvers staðar annars staðar og því var dengt í viðbót á sjúkratryggingarnar, taka 200 millj. í viðbót af sjúkratryggingum. Enn kom bréf nú rétt fyrir jólin, 16. des. Og ég held að ég nenni nú ekki, virðulegur forseti, að telja það upp en það átti þá að spara það í samningum við lækna og á lyfjum og þessum sömu liðum aftur og aftur, enda sýnir það sig í þessu fjáraukalagafrv. sem við erum nú að fjalla um að ekkert af þessu hefur gengið eftir. Þetta tókst ekki. 400 millj. kr. heilsukortin, 200 millj. vegna lífeyristrygginganna, sem voru færðar yfir á sjúkratryggingar, og 180 millj. viðbótarsparnaðarins sem heilbrrh. var gert að spara, það náðist ekkert af því og nú er farið fram á 800 millj. kr. aukafjárveitingu til sjúkratrygginga.
    Mér finnst þetta vera ágætt að hv. þm. aðeins rifji þetta upp fyrir sér og hugleiði það um leið og við setjumst niður við að afgreiða frv. til fjárlaga fyrir næsta ár því að enn ætla menn að fara í sömu greinarnar. Ég er að vísu ekki með þá greinargerð fyrir framan mig núna en það kemur að því að við lítum nánar á það, bæði í fjárln. og vafalaust hér í umræðum í þinginu, hvernig það muni ganga að ná þeim sparnaði sem þar á að ná fram, bæði í lyfjum og sérstökum nýjum samningum við lækna svo að eitthvað sé tínt til af því sem þar er nefnt. Ég leyfi mér sem sagt að hafa miklar efasemdir um það, virðulegur forseti, að það náist fram en staðfestingin a.m.k. hvað varðar þetta ár sem nú er að líða liggur fyrir hér í þessu fjáraukalagafrv.
    Síðan er hér farið fram á að rekstrarhalli sjúkrahúsa verði bættur sem nemur 320 millj. kr. Þar munar auðvitað mest um 100 millj. kr. til St. Jósefsspítala þar sem var svo hert að við fjárlagagerðina síðustu að það var algerlega útilokað að sú stofnun gæti gengið miðað við þær fjárveitingar öðruvísi en að lama starfsemina og reyndar lýstu forsvarsmenn þess sjúkrahúss þegar þeir gengu á fund fjárln. í fyrra því fjárlagafrv. einmitt á þann hátt að það væri hreinlega verið að ganga af spítalanum dauðum eða a.m.k. algerlega lama starfsemi hans. Nú hefur auðvitað verið reynt að halda þessari starfsemi gangandi og það sýnir sig að hér þarf að bæta 100 millj. kr. fjárveitingu við reksturinn og ég leyfi mér nú reyndar að efast um það, við höfum ekki ennþá rætt við fulltrúa þessarar stofnunar frekar en annarra stofnana, ég leyfi mér að efast um að það dugi til þess að endar nái saman í rekstri þeirrar stofnunar, ég er reyndar viss um að það tekst ekki. Og ég er alveg viss um það að 80 millj. kr. sem á að bæta Borgarspítalanum duga hvergi nærri. Og það höfum við auðvitað heyrt í fjölmiðlum seinustu daga að forsvarsmenn Borgarspítalans hafa verið að gera grein fyrir því hvernig komið er rekstri þeirrar ágætu stofnunar. Þar er ljóst og ég man eftir því og gerði grein fyrir því í fyrra í umræðunum að það væru um það bil 300 millj. sem fjárhagsvandi þeirrar stofnunar stefndi í og ég man ekki betur en ég heyrði forstjóra Borgarspítalans segja frá því í fréttum í gærkvöldi að vandi stofnunarinnar væri um 300 millj. kr. Hér á að bæta við 80 millj. sem er einkum vegna þess að það er verið að viðurkenna að þær sértekjur sem stofnuninni hafa verið áætlaðar muni ekki innheimtast. Og Ríkisspítalarnir fá hér síðan nokkra upphæð, 52 millj. sem ég er reyndar alveg viss um að duga hvergi nærri til þess að leysa þau vandamál sem þar er við að fást svo að það þarf enn að draga úr þjónustu á þessum mikilvægu sjúkrastofnunum.
    Þetta finnst mér allt vera mál sem við höfum fulla ástæðu til, virðulegur forseti, að hafa miklar áhyggjur af. Við munum skoða þetta í fjárln. nú milli umræðna, við munum fara yfir þetta fyrir 2. umr. um fjáraukalagafrv. og ræða við fulltrúa Tryggingastofnunar og sjúkrahúsanna fyrir svo utan það að ýmsar aðrar stofnanir eiga auðvitað líka í miklum vanda. Ég ætla að leyfa mér að nefna t.d. Háskóla Íslands. Ég hef fengið í hendur í dag samþykkt háskólaráðs þar sem verið er að fjalla um stöðu þeirrar ágætu stofnunar og þar er gerð grein fyrir því að skólinn á mjög í erfiðleikum með að gegna sínu hlutverki. Fjárveitingar til hans hafa verið skornar niður alvarlega að undanförnu og þessi stofnun, sem ég hygg að hafi haft á sér gott álit og nemendur sem hafa komið frá Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í ýmsum greinum hafi þótt koma til náms þar vel undirbúnir --- forsvarsmenn hinna ýmsu deilda hafa nú miklar áhyggjur af því að þeir geti ekki staðið við það sem þeim er ætlað og þeir geti ekki útskrifað nemendur með þeirri þekkingu sem til er ætlast og auðvitað krafist af stofnun eins og háskólanum.
    Það er sannarlega áhyggjuefni. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum, sem ég sé að hleypur nú mikið á, í það að lesa þessa ályktun en það væri þó þörf lesning og nauðsynlegt að gera stjórnvöldum grein fyrir því hvernig búið er að fara með háskólann.
    Ég ætla svo aðeins, hæstv. forseti, að eyða örfáum orðum hér í lok ræðu minnar í það að fjalla um þessar yfirfærsluheimildir sem hér eru ráðgerðar í fjáraukalagafrv., heimildir til fjárveitinga frá liðnu ári sem gert er ráð fyrir að stofnanir fái að nýta sér. Ég hef áður lýst því að ég er efnislega sammála þeirri stefnu sem boðuð er, en ég held að við þurfum samt mjög að huga að okkur hvað varðar þennan þátt mála. Við þurfum mjög að gæta okkar í því að hafa yfirsýn, að yfirsýn tapist ekki um það hver er hin raunverulega rekstrarþörf stofnananna. Hvað er mikil ástæða til þess að flytja fjármuni á milli? Hvaða svigrúm eigum við að gefa stjórnendum stofnananna og hvernig á að fara með þær stofnkostnaðarfjárveitingar sem ekki nýtast á einu ári eða fjárveitingar til viðhaldsframkvæmda sem ekki nýtast á einu ári þegar við flytjum þær til þess næsta? Þetta þurfum við a.m.k. að hugleiða. Það kann að vera að það sé rétt sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. áðan að þessar upphæðir hefðu náð einhverju jafnvægi. Við værum kannski að tala um einhverja 1--2 milljarða kr. sem gætu verið þær upphæðir sem við flytjum á milli ára og viðbúið er að það leiti einhvers jafnvægis en ef mikil frávik verða þá er a.m.k. nauðsynlegt að við áttum okkur vel á því.
    Ég hefði svo viljað spyrja um þrjár eða fjórar upphæðir en það er auðvitað mál sem fjárln. getur aflað upplýsinga um aftur í sinni vinnu og kannski ekki ástæða til að krefja svara um það hér eða nú við þessa 1. umr. en ég vil þó nefna það sem er mér efst í huga og er á þessum lista sem fylgir í greinargerðinni. Þar er gert ráð fyrir því að flytja frá fyrra ári yfir á fjárlög þessa árs viðhalds- og stofnkostnaðarfjárveitingar almennra framhaldsskóla, nærri 300 millj. kr. Þetta er æðistór tala, stafar sennilega af því að það sé hluti af þeim milljarði sem ríkisstjórnin lofaði til atvinnuskapandi aðgerða á seinasta ári en ekki nýttist og er það þá auðvitað staðfesting á því sem við höfum haldið fram að það væri ekki unnið fyrir þær fjárveitingar eins og skyldi til þess að bæta atvinnuástandið. Þjóðminjasafnið fær hér yfirfærðar 64 millj. kr. og svo er hér það sem ég nefndi nú reyndar áðan af því að það er auk þessarar yfirfærslu gert ráð fyrir smáaukafjárveitingu, viðbótarfjárveitingu í uppgjöri við sveitarfélögin, að það sé þá a.m.k. alveg ljóst og við höfum yfirlit yfir það að því máli sé þá endanlega lokið.
    Síðan er hér æðistór upphæð, húsnæði og búnaður dómstóla, upp á 50 millj. kr., sem ekki hefur verið nýtt, og að lokum er hér æðihá upphæð, sem fjárln. hefur þegar beðið um skilgreiningu á eða lista yfir, en það eru fjárveitingar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra upp á 80 millj. sem hér er óskað eftir yfirfærslu á en ekki skýrðar.
    Ég endurtek það að ég krefst ekki neinna svara hér og nú um það hvað hér liggur að baki. Fjárln. mun afla sér þeirra í sinni vinnu þegar hún fjallar um frv. milli 1. og 2. umr. en þetta finnst mér vera ástæða til að nefna af því að við þurfum að hafa gott yfirlit, góða yfirsýn yfir þessar yfirfærslur þó að ég sé í aðalatriðum efnislega sammála um það markmið sem í því felst að hafa þessa heimild.