Fjáraukalög 1994

15. fundur
Miðvikudaginn 19. október 1994, kl. 15:45:46 (594)

[15:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :

    Virðulegi forseti. Það er skammur tími þar til þingflokksfundir hefjast og ég ætla aðeins að nefna hér nokkur atriði sem snerta þetta frv. en mun þá taka til máls síðar ef ástæða er til. En nú spyr ég virðulegan forseta: Hvar er hæstv. fjmrh. niðurkominn? Ég vil gjarnan sjá hann hér því að ég ætla að beina til hans spurningum sem vaknað hafa vegna þessa frv.
    ( Forseti (KE) : Fjmrh. er í húsinu. Hann var hérna rétt áðan þannig að forseti býst við að hann sé skammt undan og mun gera ráðstafanir til þess að láta vita að hans sé óskað í salinn.)
    Ég ætla samt að byrja á ræðu minni og segja það til að byrja með að þetta frv. speglar þá miklu fjármálasnilld sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt. Hér er hinn mikli hallarekstur á ríkissjóði lifandi kominn og stefnir nú í 10,9 milljarða kr. sem er gífurlegur halli. Þetta er að vísu ekki miklu meira en gert hafði verið ráð fyrir en þetta er samt sem áður mjög mikill halli og skýrist af því að sparnaðaráform hafa ekki náð fram og einnig því að ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar á þessu ári sem hafa í för með sér mjög aukin útgjöld. Ég ætla að fresta því núna að blanda mér í þá vaxtaumræðu sem hér átti sér stað en þess í stað ætla ég að nefna nokkur atriði sem koma fram í frv. og sem vekja stórar spurningar varðandi það hvernig haldið er á fjármálum ríkisins.
    Það fyrsta sem vekur athygli er það mál sem var allnokkuð í fréttum og snertir 50 ára afmæli lýðveldisins þar sem í ljós kom að farið hefur verið tugi milljóna fram úr áætlunum. Ég hef undir höndum greinargerð sem dreift hefur verið í fjárln. varðandi þetta mál þar sem kemur í ljós að nánast hver einasti liður hefur verið vanáætlaður. Maður spyr sig að því hvernig staðið er að svona áætlanagerð þegar skeikar svo miklu, tugum milljóna. Hér er verið að biðja um nokkra tugi milljóna í aukafjárveitingu vegna þessa máls. Þetta er eins og ég segi nánast hver einasti liður, löggæsla, tónlistarflutningur, auglýsingar, björgunarsveitir, mannvirkjagerð á hátíðarsvæðinu, móttaka erlendra gesta o.s.frv. Ég held að menn hljóti að verða að taka betur á áætlanagerð, bæði í ráðuneytum og stofnunum ríkisins.
    Þá vekur líka spurningar hjá mér í kaflanum um menntmrn. að þar er beðið um 50 millj. kr. aukafjárveitingu vegna fjölgunar nemenda í grunnskólum. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum stendur á því að hægt er að vanáætla kostnað í grunnskólanum upp á heilar 50 millj. kr. Við vitum alveg nákvæmlega hvað nemendur eru margir, hvað hver árgangur er stór. Það getur skeikað einhverjum 10--20 nemendum sem flytja til landsins eða eitthvað slíkt en ég hreinlega skil ekki svona útreikninga. Hvernig stendur á því að menn hafa ekki nákvæmar tölur yfir það hvað nemendur eru margir? Svona er þetta ár eftir ár.
    Það eru ýmsir liðir sem vekja athygli eins og 21 millj. kr. aukafjárveiting til lögreglustjóraembættisins í Reykjavík vegna þess að menn hafa gefist upp á að innheimta kostnað vegna gæslu erlendra þjóðhöfðingja. Ekki veit ég hvort þetta á rætur að rekja til heimsóknar þeirra Reagans og Gorbatsjovs, hvort það eru svo gömul mál eða hvað þarna er á ferðinni. ( Fjmrh.: Sumt er svo gamalt.) Hæstv. fjmrh. kinkar kolli og kannski er bara raunsætt að viðurkenna að þetta næst ekki inn.
    Síðasti ræðumaður fór allítarlega út í kaflann um heilbr.- og trmrn. þar sem kemur í ljós að hin miklu sparnaðaráform náðu ekki fram að ganga. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu en snúa mér hins vegar að þeim lið sem mér þykir gegna mikilli furðu og það er 20 millj. kr. framlag til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Hér kem ég að spurningum mínum til hæstv. fjmrh.
    Þannig er mál með vexti að starfsmenn sjúkrahússins í Vestmannaeyjum fóru í mál við sjúkrahúsið vegna greiðslu á bakvöktum og dómur féll í héraðsdómi þeim í vil. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem felldi sinn dóm 25. nóv. 1993 og staðfesti þar dóm undirréttar. Málið var flutt fyrir hönd eins af starfsmönnum sjúkrahússins og litið þannig á að þarna væri um prófmál að ræða og að dómurinn þýddi leiðréttingu til annarra starfsmanna sem voru á þessum sömu kjarasamningum og tóku bakvaktir.
    Nú vill svo til, virðulegi forseti, að það er næstum því heilt ár liðið síðan dómur féll í Hæstarétti og enn þá hafa þessir starfsmenn ekki fengið greitt, ekki einu sinni sá starfsmaður sem málið var höfðað fyrir. Hún hefur ekki fengið það greitt sem Hæstiréttur hefur kveðið upp úr að henni beri að fá. Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða því þær hlaða á sig dráttarvöxtum mánuð eftir mánuð. Mér er sagt að starfsmenn á sjúkrahúsi Vestmannaeyja hafi reiknað út að viðkomandi starfsmaður fái u.þ.b. 4.000 kr. á degi hverjum núna í dráttarvexti. Ég spyr: Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ég veit að það hafa verið uppi deilur milli sjúkrahúss Vestmannaeyja og heilbr.- og trmrn. um það hver eigi að borga þetta, hvernig eigi að skipta þessu á milli. En hvers vegna í ósköpunum hefur fjmrn. ekki lagt út fyrir þessu til að spara þessa gífurlegu dráttarvexti?
    Ég hef undir höndum ljósrit af innheimtubréfum sem voru send, þau eru reyndar frá upphafi þessa árs og hér skipta dráttarvextir hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum.
    Í fyrsta lagi finnst mér að með svona málsmeðferð sé verið að sýna því fólki sem leitar réttar síns fyrir dómstólum óvirðingu. Þvílíkt og annað eins að það líði heilt ár frá því að dómur fellur í Hæstarétti þar til fólk fær þetta greitt. Þetta er greiðsla fyrir vinnu.
    Í öðru lagi finnst mér líka að með þessu sé verið að sýna Hæstarétti óvirðingu. Þetta er endanlegur dómur og framkvæmdarvaldið hlýtur að hlýða þeim dómi.
    Í þriðja lagi er þetta mál mjög vont fyrir sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum sem er náttúrlega fjársvelt eins og önnur sjúkrahús á landinu og má ekki við því að skuldir eins og þessar hlaði á sig dráttarvöxtum. Það er alveg ljóst að það verður að borga þetta. Þetta er samkvæmt dómi Hæstaréttar. Það er reyndar búið að senda mál allra þessara einstaklinga fyrir dóm og það er líka að hlaða á sig kostnaði. Þetta hefur í för með sér endalausan kostnað fyrir ríkissjóð. Ég spyr hæstv. fjmrh. --- sem er hlaupinn í símann: Hvers konar meðferð er þetta á almannafé? Hvort sem við lítum á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum, bæjarsjóð Vestmannaeyja eða ríkissjóð þá er þarna um meðferð á almannafé að ræða. Þetta er auðvitað ótækt. Ég spyr mig: Eru mörg svona dæmi? Er mikið um svona málsmeðferð hjá ríkinu eða sveitarfélögum? Ríkið hefur tekið yfir reksturinn á sjúkrahúsi Vestmannaeyja en í þessum málum felst að annars vegar er um tímabil að ræða þegar sjúkrahúsið var rekið á ábyrgð bæjarsjóðs Vestmannaeyja hins vegar er það tímabil eftir að ríkið yfirtók reksturinn. Mergurinn málsins er sá að þessir starfsmenn sjúkrahúss Vestmannaeyja hafa ekki fengið þetta greitt þrátt fyrir að næstum því ár sé liðið frá því að dómur féll. Í öðru lagi hleður þetta á sig endalausum dráttarvöxtum.
    Þetta er málsmeðferð sem er ríkissjóði til lítils sóma og ég hlýt að sjálfsögðu að fagna því að loksins er gert ráð fyrir því, í þessu frv., að þetta verði greitt. Ég veit ekki hvort þetta dugar en þetta er alla vega langt upp í þessar skuldir og þetta er orðið að 20 millj. kr.