Samningsveð

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 10:35:46 (602)

[10:35]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samningsveð sem lagt hefur verið fram á þskj. 88. Þetta frv. hefur verið lagt fram á tveimur þingum áður. Eins og kunnugt er eru núgildandi veðlög frá árinu 1887 og fela í sér mjög ófullnægjandi ákvæði um samningsveð. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra laga hafa verið sett ýmis lög varðandi samningsveð. Einkanlega á það við um veðsetningu í þágu lánastarfsemi ákveðinna atvinnugreina. Þróun réttarins á þessu sviði hefur því verið mjög brotakennd og ómarkviss, ólíkar reglur hafa gilt um veðsetningu eftir því hvaða atvinnugreinar hafa átt í hlut. Hér er að því stefnt að setja í fyrsta skipti heildarlöggjöf um samningsveð og taka á þeim helstu álitaefnum sem uppi eru í þeim efnum og gera löggjöfina samræmda þannig að sambærilegar reglur gildi um veðsetningar hver sem í hlut á og að hagsmunir þeirra sem lána út á veðsetningar séu tryggðir og jafnræði ríki í þeim efnum og hvers kyns mismunun eytt. Jafnframt er verið að rýmka heimildir til veðsetningar og þjónar það í verulegum mæli hagsmunum atvinnuveganna í landinu.
    Frú forseti. Með því að þetta frv. hefur verið flutt á tveimur þingum á þessu kjörtímabili og ítarleg grein gerð fyrir því í framsöguræðum og enn fremur í athugasemdum með frv., þá vísa ég til þeirra skýringa og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.