Tilkynning um dagskrá

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:05:18 (612)

[11:05]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. að fyrir þessu máli var mælt á síðasta þingi og þær umræður er hægt að sjá í þingtíðindum og verða þingmenn sjálfsagt að leita þangað sér til fróðleiks því ef ég man rétt þá vorum við fjögur í þingsalnum einhvern tímann undir kvöld á fimmtudegi, tveir almennir þingmenn, hæstv. ráðherra og forseti, þegar mælt var fyrir málinu og urðu um það reyndar þrátt fyrir það hinar ágætustu umræður.
    En það er rétt sem hérna kom fram að efh.- og viðskn. fjallaði um málið á einum fundi á síðasta sumri. Fór yfir umsagnir og gerði þó nokkrar athugasemdir sem að nokkru hafa verið teknar til greina þegar frv. eru lögð hér fram að nýju. Þar vil ég sérstaklega fagna því að það var tekið tillit til eindreginna óska nefndarmanna um að breyta nafni á minna félagaforminu sem hét eignarhlutafélög sem okkur fannst að væri alls ekki langt frá því að vera gegnsætt nafn. Það sem kom upp í huga flestra þegar rætt var um eignarhlutafélög var samsvörun við eignarhaldsfélög eða einhver slík stærri félög. Ég kann miklu betur við nafnið einkahlutafélag og tel að í nafninu sem slíku felist miklu frekar hvað átt er við heldur en var áður.
    Ég sagði í umræðunni í fyrra að ég fagnaði þessari breytingu að það væru þessi tvö form, annars vegar það sem nú heitir í frv. einkahlutafélög og er sveigjanlegra form og liprara og ætti að geta orðið til þess að hluti þeirra sem í dag eru með atvinnurekstur í eigin nafni með ótakmarkaðri ábyrgð geti nýtt sér þetta form. Það tel ég miklu eðlilegra að menn standi fyrir sínum atvinnurekstri á þann hátt að ábyrgðin sé afmörkuð og takmörkuð og það sé öllum ljóst, bæði þeim sem út í þetta fara og þeirra fjölskyldur og þeirra sem eiga viðskipti við viðkomandi félög hvaða áhættu er verið að taka og að hverju er hægt að ganga.
    Það er svo aftur annað mál að því miður hefur það verið allt of ríkjandi í okkar viðskiptaumhverfi í okkar landi að sérstaklega fjármálastofnanir hafa ekki verið tilbúnar til þess að taka veð í eigum hlutafélaganna og því hlutafélagi sem þar er lagt fram og gengið mjög hart fram í því að fá því til viðbótar persónulegar ábyrgðir þeirra sem á bak við standa og reyndar fleiri aðila og með þessu í raun oft og tíðum eyðilagt rekstrarformið sem slíkt.

    Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að til þess að við sjáum þessa mynd í heild þá þarf einnig að afgreiða ný lög um ársreikninga og bókhald. Við verðum að leyfa samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og þeim tilskipunum sem þar er farið eftir að njóta sannmælis. Það er mín skoðun að það að taka þær upp í íslensku viðskiptaumhverfi til viðbótar við fleiri breytingar sem hér eru gerðar geri allt okkar viðskiptaumhverfi mun gegnsærra og auðveldara fyrir þá sem eiga í viðskiptunum að átta sig á stöðu þeirra fyrirtækja sem verið er að versla við eða eiga viðskipti við á hverjum tíma. Það tel ég vera til mikilla bóta.
    Ég vil reyndar segja til viðbótar þessu að að mínu mati, og ég vil tengja það því að nú um áramótin er verið að opna að fullu fyrir fjármagnshreyfingar til og frá landinu bæði hvað varðar langtímalán og skammtímahreyfingar, er nauðsynlegt þegar það gerist að ekki sé bara búið að ganga frá lögunum um hlutafélög og einkahlutafélög, um ársreikninga og bókhald, heldur er nauðsynlegt að mínu mati að á svipuðum tímapunkti verði einnig búið að ganga frá breytingum á lögum um erlenda fjárfestingu. Það segi ég m.a. vegna þess að við vitum og það hefur komið fram í umræðunni að eftir að opnað var meira fyrir fjármunaflutninga til og frá landinu hefur nokkuð fjármagn flust frá landinu. Það er talað um að það verði um 8 milljarðar á þessu ári. Á móti kemur að erlendir aðilar hafa keypt eitthvað af íslenskum verðbréfum erlendis þannig að það hafa flust einhverjir fjármunir inn í landið í staðinn.
    Ég tel hins vegar að þegar við erum búin að opna fyrir þessar fjármagnshreyfingar þá verði einnig að liggja alveg ljóst fyrir hvaða reglur gilda um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnulífinu í formi kaupa á hlutafé. Það er það form sem e.t.v. er hvað algengast. --- Forseti, ég verð að segja alveg eins og er að það er eilítið hvimleitt og það truflar mig dálítið að hafa þennan fund í gangi til hliðar, ekki síst þar sem annar þátttakandinn er sá ráðherra sem með málið fer.
    Virðulegur forseti. Ég þarf að rifja eilítið upp hvar ég var staddur í ræðu minni en það sem ég var að segja var að eitt algengasta formið í fjármagnsflutningum milli landa felst í kaupum á hlutafé í atvinnurekstri í viðkomandi landi. Til þess að heildarmynd verði komin á þetta þegar búið er að opna fyrir erlendu fjárfestinguna þá tel ég að til viðbótar við þessi frv. sem hér hafa verið til umræðu og í nefnd þá þurfi einnig að vera búið að ganga frá nýjum lögum um erlenda fjárfestingu.
    Við verðum að taka ákvarðanir á næstu mánuðum um það grundvallaratriði sem þar hefur verið deilt um, það er fjárfestingin í sjávarútveginum. Ég sé ekki að við getum staðið á þeim lögum sem nú eru þar sem óbein fjárfesting er óheimil og við verðum að finna nýjar reglur sem í senn vernda okkar auðlindir, vernda yfirráð okkar, raunveruleg yfirráð okkar yfir okkar grundvallarauðlindum til sjávarins en um leið rýmki að einhverju leyti heimildir erlendra aðila til fjárfestingar í fiskvinnslu. Að mínu mati komumst við ekki undan þessu og ég tel að Alþingi verði að sýna þann manndóm að taka á þessu máli.
    Virðulegur forseti. Þó að þetta sé kannski eilítið út fyrir þau frv. sem hér eru til umræðu þá hef ég rökstutt það að það tengist mjög. Ég sé ekki að það sé betra fyrir okkur að það fari eins og er að verða í dag að erlendir aðilar, sem vissulega hafa heimildir til annarra fjárfestinga hér á landi, kaupi bæði húsnæði og vélar og leigi svo innlendum aðilum oft --- oft segi ég, maður veit dæmi um slíkt, --- á ofurkjörum. Það sé mun betra að fjármagnið sé lagt fram eftir eðlilegum leiðum þannig að við getum eftir lögum um hlutafélag, um ársreikninga og bókhald haft fullt yfirlit yfir þessa fjárfestingu og hvernig hún stendur á hverjum tíma. Inn í slíkar breytingar þurfa hins vegar að vera ákveðnir þröskuldar sem gera það að verkum að við höldum óskoruðum yfirráðum okkar yfir auðlindinni.
    Virðulegur forseti. Þetta vildi ég láta koma hérna fram vegna þess að ég er að reyna að horfa á þessi mál öllsömul í samhengi og að við reynum þegar þessar breytingar koma allar til framkvæmda að ganga þannig frá öllum þáttum málsins að fjármagnshreyfingarnar innan og milli fyrirtækjanna og milli landa verði sem gegnsæjastar og að við horfum ekki bara á ókosti þess að opna fyrir erlendu fjárfestinguna og missa þannig fjármagn úr landi heldur getum við gengið þannig frá hlutunum að við getum fengið nýtt fjármagn erlendis frá í okkar atvinnulíf því að vissulega þurfum við á því að halda.
    Það var mjög athyglisvert að sjá umsagnir erlendra fjarfestingarbanka um fjárfestingu í Noregi nú á síðustu dögum sem einmitt gekk í þá átt að eini áhuginn sem erlendir aðilar sýndu á fjárfestingu þar var í greinum sem tengdust nýtingu náttúruauðlinda landsins. Ég tel afar líklegt og reynslan sýnir að það sama muni gilda um Ísland.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en ég held að ég geti alveg fullyrt að það er fullur vilji hjá efh.- og viðskn. að ganga í að klára að vinna þessi mál þannig að hægt verði að ganga frá þeim fyrir áramót. Enda tel ég að þetta séu málefni þess eðlis að það eigi ekki að þurfa að vera um þau flokkspólitískur ágreiningur heldur muni menn fara ofan í þetta með hagsmunaaðilum og reyna að ganga þannig frá málinu að það verði okkar viðskiptalífi til mestra hagsbóta.