Tilkynning um dagskrá

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:18:49 (613)

[11:18]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til þess að nýta sem best tímann vildi ég gjarnan koma því á framfæri í stuttu andsvari að ég vildi í fyrsta lagi þakka hv. þm. fyrir það hvernig hann tekur á málunum og í öðru lagi lýsa

ánægju minni yfir því sem hann sagði um að nauðsynlegt sé að endurskoða lög um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Ég er honum mjög sammála um það að ekki er hægt að framkvæma þau lög eins og þau eru. Ég vil aðeins upplýsa í því sambandi að við sjútvrh. erum nú að ræða saman um slíkar breytingar því, eins og hv. þm. sagði sjálfur, þarna er vandrötuð leið í sambandi við okkar frumframleiðslu sem við verðum að fara og er að heimila frjálsari fjárfestingar erlendra aðila en nú er gert í þeim greinum, en þó þannig að ávallt sé tryggt að forræðið sé í íslenskum höndum. Ég er honum sammála um að þetta þurfi að gera og ég er í viðræðum við sjútvrh. um að leita nýrra leiða í þeim efnum.