Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:20:21 (614)


[11:20]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna. Ásamt mér eru flm. hv. þm. Matthías Bjarnason, Tómas Ingi Olrich og Guðjón Guðmundsson. 1. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Aftan við 8. gr. laganna bætist: Réttur til biðlauna fellur niður ef fyrrverandi alþingismaður tekur við starfi í þjónustu ríkis, sveitarfélags eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eign ríkisins enda fylgja stöðunni jafnhá eða hærri laun en þingfararkaup. Ella greiðist launamismunurinn til loka tímabilsins.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð segir: Frv. þetta var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Á undanförnum árum hefur komið í ljós að ósamræmi er í ákvæðum laga um biðlaun ráðherra og þingmanna. Frv. þetta er flutt til að taka af öll tvímæli um að biðlaunagreiðslur falli niður ef sá sem þeirra á að njóta tekur við öðru starfi sem er jafnt eða hærra launað en þingfararkaup þegar hann lætur af þingmennsku.
    Í framhaldi af þessu vil ég vísa til örfárra orða minna þegar ég mælti fyrir þessu frv. á síðasta þingi, með leyfi forseta:
    ,,Grundvallaratriði þessa frv. eru að biðlaun falli niður ef alþingismaður tekur við öðru opinberu starfi með jafnháum launum eða hærri, ella greiðist launamismunur.
    Biðlaun eru laun milli embætta til þess ætluð að brúa tímabil atvinnuleysis að loknu starfi. Það stríðir því gegn anda laganna að greiða alþingismanni slík laun ef hann fær nýtt starf um leið og hann lætur af þingmennsku. Þetta mál hefur mikið fordæmisgildi og getur rutt brautina til frekari umbóta og á því er ekki vanþörf eftir þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarna daga.``
    Svo mælti ég í fyrra og má við bæta að ekki hefur þessi umræða minnkað.
    Nóg er af dæmum í opinbera kerfinu að menn taki rétt sinn sjálfir, greiði sér laun í ýmsu formi sem ekki er bein lagafyrirmæli fyrir. Með þessum hætti gengur ríkisgeirinn á undan í kaupskrúfu. En þetta gildir, virðulegi forseti, bara fyrir hina betur settu, sjálftökufólkið. Ekki aldeilis fyrir hina lægri settu. Þegnar þjóðfélagsins sætta sig ekki við þessa mismunun og fjársóun. Virðing Alþingis og ríkisstjórnar, virðing lýðræðisins bíður hnekki við slíkt. Það þarf að taka á bílakaupum og fríðindum bankakerfisins, já og á öllu sjálftökuliði. Steypa þarf öllum launa- og kjaramálum ríkis og ríkisstofnana í nýtt form frá grunni. Þetta frv. gæti verið byrjunin.
    Saga þessa máls í fyrra á hv. Alþingi var sú að enda þótt það nyti víðtæks stuðnings þá kom málið aldrei úr nefnd. Nefndin afgreiddi það ekki frá sér og svo er um fleiri mál. Er til mikils mælst við hv. nefnd sem þetta mál gengur til að hún taki á sig meiri rögg en í fyrra og málið komi hér inn til Alþingis og verði afgreitt með hraði?
    Ég vil svo, virðulegi forseti, leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.