Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:24:31 (615)

[11:24]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni hið mesta sanngirnismál. Reyndar tel ég að þetta ætti að miðast við hvert það starf sem þingmaður tekur til við, hvort sem það er hjá einkaaðila eða ríkisfyrirtæki. Það er örugglega einfalt að koma með sönnunarbyrði á því að þingmaður ráðist til annars starfs.
    Það er rétt að velta fyrir sér réttindum fólks almennt þegar það missir starf. Flestir verða að sæta því að vera launalausir þar til færi gefst á öðru starfi. Ég og margir aðrir þekkjum mýmörg dæmi þar sem

aðilar, bæði forstjórar og almennir starfsmenn, hafa gengið atvinnulausir mánuðum saman. Oft er um að ræða atvinnumissi sem er í kjölfar gjaldþrota.
    Það er e.t.v. ástæða til þess að gera samanburð á viðbrögðum hv. Alþingis í mismunandi tilvikum þegar fólk hrekst frá störfum. Vegna hagræðingar hefur fólki verið sagt upp störfum svo tugum skiptir án þess að það hafi verið nokkur viðbrögð á Alþingi. En ef áberandi aðilar eru settir frá starfi þá fer allt upp til handa og fóta og hafin stór umræða um slíkt. Má í þessu sambandi minnast utandagskrárumræðu sl. mánudag. E.t.v. ætti hv. Alþingi að ræða almennt um launamál og kjör fólksins í landinu. E.t.v. ætti hv. Alþingi að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að hér er fullt af fólki sem er með laun niður í 43 þús. kr. á mánuði. Auðvitað ætti að ræða það á þinginu. Auðvitað þyrfti að taka fram fyrir hendur á aðilum vinnumarkaðarins. Það þyrfti að klippa neðan af þeim launum sem Garðastrætisaðilinn segir að séu ekki til í landinu, á bilinu frá 43 upp í 55 þús. Auðvitað ættum við að ræða það um leið og við erum að velta því fyrir okkur hvernig menn standa að biðlaunatöku.
    Frú forseti. Þessi orð eru e.t.v. frávik frá þessu frv. sem hér er lagt fram. En ég mæli með því eins og hv. flm. að allshn., þar sem ég á sæti, drífi þetta mál af á þessu þingi og ég þakka hv. 6. þm. Suðurl. tillögugerðina og þá vinnu sem hann hefur lagt í það og þá elju að flytja þetta mál aftur án þess að fá umfjöllun um það í viðeigandi nefnd.