Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:41:04 (617)

[11:41]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður gerði hér áðan að umtalsefni, í tengslum við þetta frv. til

laga um breytingu á lögum um þingfararkaup, aðstöðu þingmanna til starfa. Ég get að sjálfsögðu tekið undir margt af því sem hann sagði. Ég verð hins vegar að segja eins og er að það hefur m.a. ekki verið eitt af forgangsverkefnum frá mínum bæjardyrum séð að leggja áherslu á að bæta þessa aðstöðu, en það stafar ekki af því, eins og hv. þm. gaf í skyn, að hjá mér hafi búið um sig einhver lágkúrulegur ótti við almenningsálitið. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekki svo með hv. þm. almennt, að þeir þori ekki að hreyfa málum af þessu tagi af einhverjum lágkúrlegum ótta við almenningsálitið. Það vill svo til, hv. þm., að það gildir um Alþingi eins og aðrar stofnanir í þessu þjóðfélagi, að við erum til þess að gera fámennt þjóðfélag sem verður að standa undir mjög fjölbreytilegri þjónustu, t.d. þjónustu í Háskóla Íslands. Við höfum orðið að standa þar að niðurskurði, sem okkur finnst að sjálfsögðu ekki þægilegt að þurfa að standa að. Það er búið mun verr að Háskóla Íslands en að flestum háskólum í okkar nágrannalöndum. En við búum líka mun verr að ýmsum öðrum þjónustustofnunum okkar en aðrar þjóðir geta leyft sér og við búum að sjálfsögðu að Alþingi Íslendinga með ófullkomnari hætti heldur en önnur þing búa að sínum þingmönnum og sínu starfsfólki. Þetta er hluti af því að vera lítið þjóðfélag, sem ber þó mikinn þunga af stofnunum sínum. Þannig að ég vil undirstrika að þó hv. þm. hafi rétt fyrir sér um að það mætti búa mun betur að þinginu, þingmönnunum og starfsmönnum þess, þá er þarna ekki að baki neinn lágkúrulegur ótti við almenningsálitið að mínu mati.