Þingfararkaup alþingismanna

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 11:49:39 (621)

[11:49]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég kem í stólinn til að taka undir efni frv. en áður en ég vík að því langar mig til að blanda mér örlítið í þær umræður sem hér fara fram um allt annað mál, þ.e. húsnæði Alþingis og annað sem tengist þessu kannski óbeint. Ég held ég verði að taka undir orð hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, að mér finnst oft gæta, ég veit ekki hvort ég á að kalla það spéhræðslu eða feimni við það að viðurkenna að við búum ekki alltaf við allt of góð skilyrði, starfsaðstæður í þinginu. Það hefur batnað mjög á undanförnum árum en það er eins og ekki megi minnast á að bæta starfsaðstöðu hér. Við getum tekið tölvur sem dæmi eða hvað sem er, það er alltaf verið að spara. Hér síðast var talað um húsnæðismál Alþingis og ég man ekki betur en það hafi birst í blöðum fyrir nokkrum dögum viðtal við forseta Alþingis þar sem því var lýst að ekki hefði verið til fjármagn til að gera við húsnæði Alþingis við Kirkjustræti, þar sem þó hafa borist bréf frá íbúasamtökum og reyndar fjölmörgum öðrum um að það sé óviðunandi hvernig Alþingi umgengst eigur sínar og sérstaklega þá þessi gömlu hús sem eru Alþingi til skammar að mati mjög margra. En eins og fram hefur komið hjá forseta Alþingis er það vegna fjárskorts sem við höfum ekki getað gert neitt við þau og það skiptir engu máli hvort það eru uppgangstímar eða samdráttartímar, það virðist aldrei vera afgangspeningur til að hugsa t.d. um slík mál.
    En ég ætla ekki að eyða allt of miklum tíma í að ræða þetta hér en vildi, eins og ég segi, taka undir efni þessa frv. Að mínu mati ætti í raun ekki að þurfa slíkt frv. en dæmin sanna að það virðist svo vera. Það hafa komið fram dæmi um það að menn hafi sótt um biðlaun eða notað þennan rétt sinn þó þeir fari í hálaunastörf á vegum ríkisins. Ég get tekið undir það að það ætti í raun að gilda um önnur störf líka en við ráðum kannski ákaflega illa við það að fara að meta það hvort fólk fer í störf á hinum almenna markaði. Ég vil samt benda á að þetta er eingöngu réttur til biðlauna. Þetta er þannig að þegar við hættum á Alþingi þurfum við að sækja um að fá þessi biðlaun sem þýðir að við þurfum að setjast niður og skrifa bréf og óska eftir því að fá þetta sem þýðir auðvitað það að þeir sem fara í hálaunastörf, hvort sem það er á vegum hins opinbera eða hjá einkaaðilum, ætti raunverulega siðferðilega að sjá sóma sinn í því að sækja ekki um þessi laun ef þeir eru með verulega há laun annars staðar. En það er kannski annar handleggur. Þar sem það virðist þurfa að setja einhver svona ákvæði í lög þá tel ég rétt að gera það og þess vegna vil ég gjarnan koma hér til að styðja frv. Merkilegt nokk þá man ég ekki í fljótu bragði eftir nokkrum dæmum um misnotkun á þessu nema úr einmitt flokki hv. þm. en það sýnir að þeir telja það ekki réttlætanlegt að fara svo að eins og menn hafa gert og það er auðvitað mjög gott að menn geti horft með þeim augum á sína eigin félaga.