Lánskjör og ávöxtun sparifjár

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 12:06:55 (624)

[12:06]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma á framfæri hér við hv. 1. flm. þessa frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár, hv. þm. Eggert Haukdal, að ég get fallist á mjög margar af þeim röksemdum sem hann hefur komið fram með hér gegn vísitölutryggingu fjárskuldbindinga. Hann varpaði fram þeirri spurningu hér áðan í máli sínu hvort lánskjaravísitalan hefði í raun dregið úr verðbólgu og studdist þar við fullyrðingar fyrrv. hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Jóns Sigurðssonar, þar að lútandi. Hv. þm. taldi fullvíst að verðtryggingin hefði ekki dregið úr verðbólgu. Ég get tekið undir þetta með hv. þm. Ég held að vísitölutryggingin hafi ekki dregið úr verðbólgunni. En ég verð hins vegar að segja að ég hef aldrei dregið í efa að verðtryggingin hafi sem slík verið á sínum tíma óhjákvæmileg vörn, varnaraðgerð fyrir sparifjáreigendur í landinu gegn óðaverðbólgu á meðan önnur tiltæk ráð brugðust. Menn muna vafalaust eftir því að það var lagt upp hér fyrir einum 15 árum í styrjöld gegn verðbólgunni, leiftursókn gegn verðbólgunni sem þáv. hv. stjórnarandstaða sneri upp í leiftursókn gegn lífskjörum og truflaði þar með þjóðina í mörg ár í þeirri viðleitni sinni að takast á við verðbólguna. Því var því vandamáli frestað og það var einmitt á þessum tíma þegar þessi frestur stóð að tekist yrði á við þetta vandamál sem verðtryggingin var tekin upp til varnar sparnaðinum í landinu sem var að hverfa.