Lánskjör og ávöxtun sparifjár

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 12:09:23 (625)

[12:09]
     Flm. (Eggert Haukdal) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum hv. þm. vil ég undirstrika að ég minnti á rök seðlabankastjórans fyrrv. Í seðlabankaskýrslu Jóns Sigurðssonar er sú fáránlega staðhæfing að notkun lánskjaravísitölu hafi dregið úr verðbólgu. Það er þetta sem er meginmál. Þetta hefur ekki gerst.
    Síðan það að hér hafi þurft að taka upp verðtryggingu til að passa sparifjáreigendur. Var þessi verðtrygging kaupandi því verði að setja hér allt í kaldakol í þessu þjóðfélagi, fyrirtæki og heimili? Ég held ekki. Fyrir þessu þarf að gera sér grein. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því sem alltaf hefði átt að gerast gegnum tíðina. Það er að bankar og sparisjóðir sem voru með innlagt fé frá almenningi áttu að borga bónus á það fé sem var í langtímasparisjóðsbók. Þar brást bankakerfið og þjóðfélagið gagnvart sparifjáreigendum. Ríkið skuldar út af fyrir sig og bankar sparifjáreigendum í gegnum tíðina meðan þetta gekk vitlaust og brjálað fyrir að hafa ekki staðið rétt að hlutunum. En að hrósa og hampa þessari verðtryggingu að hún hafi leyst --- jú, jú, hún færði gífurlegt fé á hendur sumra. En kostnaðurinn sem þjóðin hefur haft af þessari verðtryggingu er hrun atvinnuveganna og heimilanna, og hvernig má það vera að það sé hægt að verja þetta kerfi? Það var miðað við að verðtrygging væri bæði á fé og kaupi manna. Verðtryggingin var afnumin af kaupinu. Kaupið var raunar tekið inn í sjálfa vísitöluna. Þetta er eitt meginhneykslið.