Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:31:38 (634)

[13:31]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Í fréttum ríkissjónvarpsins föstudaginn 14. þessa mánaðar var frá því greint að í Kastljósi þá um kvöldið yrði rætt um verðmun á landbúnaðarvörum hér á landi og í Bandaríkjunum. Í Kastljósþættinum eru svo vinnubrögðin skýrð með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þess ber að geta að þetta var ekki hávísindaleg könnun en reynt var að finna mjög sambærilega vöru í báðum löndunum. Ekki var reynt að finna skýringar á þessum mikla verðmun heldur einungis skýra staðreyndir málsins. Það sem hér kemur kannski mest á óvart er það hversu gífurlegur munur er á landbúnaðarvörum í löndunum tveimur sem í báðum tilvikum eru unnar á heimamarkaði. Þessi könnun leiddi í ljós að bandaríska matarkarfan kostaði 1.424 kr. en sú íslenska 3.458 kr. Munur á verðlagi var því 150%. Vissulega hafa menn hrokkið við af minna tilefni.``
    Í Kastljósþættinum komu einnig fram samanburðartölur milli bandarískrar og íslenskrar fjölskyldu sem ætlað er að segja til um mánaðarlega matreikninga þessara fjölskyldna. Bandaríska fjölskyldan eyðir 32.640 kr. á mánuði. Sú íslenska 40--50 þús. Munurinn á þessum mánaðarreikningum verður því 40%. Að frádregnum hérlendum virðisaukaskatti verður þessi munur 24%. En hvernig má það annars gerast að milli innkaupakarfanna sé 150% verðmunur en á mánaðarreikningunum verði þessi munur 40%?
    Augljóst er að hér eru á ferðinni afar ónákvæm vinnubrögð, e.t.v. mistök, sem eru með engum hætti sæmandi fjölmiðli sem vill gæta virðingar sinnar. Kannski er einhverja skýringu að finna í því að matarkarfan sé bandarísk og taki því ekki nægilega mið af íslenskum matarvenjum. Eins og kunnugt er neyta Íslendingar miklu meira af lambakjöti en kjúklingakjöti og þess vegna er fróðlegt að sjá hvað gerist ef matarkarfan er látin taka meira mið af íslenskum matarvenjum með því að skipta á kótilettum og kjúklingi. Eins og kunnugt er er lambakjöt miklu dýrara í Bandaríkjunum en hér á landi eins og raunar meðal flestra nálægra þjóða. Við þessa breytingu að 1 kg af kótilettum komi fyrir kjúklinginn færist verðmunurinn á milli matarkarfanna úr 150% niður í 13%. Að frádregnum virðisaukaskattinum íslenska yrðu körfurnar jafndýrar.
    Í framhaldi af þessu kom viðskrh. í sjónvarpið og þar segir hann frá því að þessi verðmismunur komi honum ekki á óvart þar sem háskólinn hafi reiknað út að hagur íslenskra neytenda af því að ganga í ESB mundi verða 5--6 milljarðar kr. Af þessu tilefni spyr ég nú hæstv. landbrh.: Með því að landbrn. hefur í tengslum við GATT og OECD-samstarf haft útreikninga á verðlagi hérlendra landbúnaðarvara með tilliti til þess sem gerist meðal annarra þjóða, er niðurstaða í þessari vinnu landbrn. í samræmi við þá niðurstöðu sem komið hefur fram í framangreindri umfjöllun ríkissjónvarpsins og þeim staðhæfingum um verðlag á íslenskum landbúnaðarvörum sem af henni hefur leitt?