Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:37:16 (635)

[13:37]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Varðandi síðari fyrirspurn hv. þm. vil ég taka það fram að sú skýrsla Hagfræðistofnunar háskólans sem hæstv. viðskrh. vitnaði til hefur verið til athugunar í sjömannanefnd, það er augljóst að hún er í sumum atriðum röng, í sumum atriðum ónákvæm en í sumum atriðum rétt og liggur nú fyrir að sjömannanefnd muni fá fulltrúa háskólans á fund til sín til þess að óska eftir því að þeir útskýri þær tölur og þær upplýsingar sem í skýrslunni eru.
    Hinn 18. maí sl. var sjömannanefndinni falið að gera úttekt á því hver staða landbúnaðarins á Íslandi yrði innan Evrópusambandsins með hliðsjón af þeim aðildarsamningum sem EFTA-ríkin gerðu í vetur. Kannað verði sérstaklega hvernig brugðist er við í málum dreifðra eða afskekktra byggða þar sem svipað háttar til og hér á landi. Sjömannanefndin er skipuð fulltrúum frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga, frá Vinnuveitendasambandinu, Alþýðusambandinu, BSRB, Stéttarsambandi bænda og landbrn. Frá því í byrjun sumars hefur verið unnið að upplýsingaöflun og greiningu á landbúnaðarkafla aðildarsamninga nágrannalandanna og hefur verkið verið í höndum undirnefndar sjömannanefndar og starfsmanns hennar, Syrpa Haga, finnsks sérfræðings í þessum málum. Nú liggur fyrir verulegt magn upplýsinga sem munu nýtast til frekari vinnu við könnun á því hvaða áhrif möguleg innganga Íslands mundi hafa á einstakar greinar landbúnaðarframleiðslunnar. Menn þurfi að átta sig á því að hér er um að ræða mikinn frumskóg reglna og ákvæða sem erfitt er að komast til botns í, auk þess sem möguleikar til túlkunar á samningunum virðast í sumum tilvikum mjög miklir. Sem dæmi um það má nefna að Norðmenn höfðu fyrir skemmstu ekki komist endanlega til botns í því hversu mikils stuðnings bændur þar í landi gætu vænst ef innganga í ESB yrði samþykkt. En allt virðist þetta liggja ljóst fyrir í skýrslu Hagfræðistofnunar.

    Eins og ég sagði þá er ekki hægt að byggja fullyrðingar á því sem þar stendur án frekari athugunar.
    Þegar rætt er um samanburð á matvælakostnaði á milli landa varðar auðvitað miklu hvað borið er saman eins og kom fram í ræðu hv. þm. og ég er honum fullkomlega sammála að því leyti. Við höfum ekki upplýsingar í höndum í landbrn. um einstaka vöruflokka. Það er rétt sem hv. þm. sagði að verðsamanburður ríkissjónvarpsins sem var réttilega fram tekið í fréttum að væri ekki vísindalega unninn, inn í hann kom villa varðandi kjúklingana sem ekki er við að gera, ég er ekkert að áfellast fréttamenn fyrir það. Eftir sem áður er munur á kjúklingaverði hér og í Bandaríkjunum verulegur og of mikill. Það má ekki gleyma því að Bandaríkjamenn eru þar ódýrastir í veröldinni en við Íslendingar erum á hinn bóginn skammt komnir í sambandi við kynbætur og fóður á Íslandi er auðvitað dýrt enn þá. En það er verið að reyna að vinna gegn þessum mun.
    Það er eftirtektarvert ef við á hinn bóginn tökum t.d. nautakjötið sem dæmi sem var inni í þessari körfu þá var samkvæmt upplýsingum OECD árið 1993 sama verð á nautakjöti til framleiðenda hér á landi, til bænda hér á landi, og í löndum Evrópubandalagsins sem er athyglisvert vegna þess að engir styrkir renna til íslenskra bænda sem hafa nautakjötsframleiðslu með höndum. En víða erlendis er greitt niður fóður, fjárfestingar, stundum er ákveðin fjárhæð greidd á haus skepnu, umhverfisstyrkir eru greiddir eða byggðastyrkir, enn fremur er mönnum greitt fyrir að rækta ekki vissa landskika. Hér á landi eru á hinn bóginn styrkirnir eingöngu beingreiðslur og liggur opið fyrir hvernig þeim er háttað.
    Það er eftirtektarvert ef við tökum t.d. nautakjötið þá er verð í Bandaríkjunum um 73% af því sem er hér á landi samkvæmt upplýsingum OECD en auðvitað er munurinn miklu, miklu meiri í kjúklingunum.
    Ég vil enn fremur minna á að við Íslendingar erum nú að gera tilraunir til þess að ná markaði fyrir íslenskt lambakjöt norður og það er jafnvel verið að gera tilraun til útflutnings á nautakjöti í Bandaríkjunum sem sýnir auðvitað að við höfum þann vissa möguleika fyrir bestu hlutana og besta kjötið af okkar framleiðslu. En neysluvenjur eru misjafnar og samanburður sem gerður er á einum eftirmiðdegi óljós og gefur auðvitað ekki heilsteypta mynd af viðfangsefninu.