Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:42:10 (636)

[13:42]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég mun nota þær tvær mínútur sem ég hef hér fyrst og fremst til þess að leggja áherslu og benda á hversu allur verðsamanburður milli landa getur í raun verið hættulegur og ómarkviss. Ég ætla að leggja hér út af plaggi sem ég hef í höndunum og er frá Evrópusambandinu þar sem er brotið upp hvernig framfærslukostnaður í hinum ýmsu löndum Evrópusambandsins skiptist. Þar eru efst á blaði matvæli. Til samanburðar hef ég að 1. des. 1993 eyddi íslenska vísitölufjölskyldan 17,7% af sínum ráðstöfunartekjum til matvælakaupa. Það eru eftir þessum tölum sem ég hef frá Evrópubandalaginu einungis þrjú lönd sem verja svo marktækt sé lægra hlutfalli af sínum fjölskyldutekjum í matvælakaup. Það eru Holland, Danmörk og Bretland. Lönd eins og Belgía, Þýskaland, Frakkland og Ítalía liggja á nákvæmlega sama prósentubilinu og við eða frá 17--19%. Við erum, eins og ég sagði áðan, 17,7%.
    Það er hins vegar viðurkennd staðreynd að matvælaverð hér í krónum talið í innkaupakörfu fjölskyldunnar er eitthvað hærra heldur en er í þessum löndum. Það segir mér eitt og það eitt að almennt er verðlag hér á landi hærra en gengur og gerist í Evrópusambandinu og það segir mér og af því leyfi ég mér að draga þá ályktun að það er mjög háskalegt að ætla sér að taka út fyrir sviga einn vöruflokk og mæla hann sérstaklega. Í þessu ljósi vil ég biðja menn að skoða þessar samanburðartölur allar.