Fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af verðmun á landbúnaðarvörum

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 13:54:14 (642)

[13:54]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér var ekki alveg ljóst frekar en reyndar fleiri hvert hv. málshefjandi var að fara í sínu máli hér, hvort gagnrýnin átti að beinast að sjónvarpinu fyrir fréttaflutninginn, viðskrh. fyrir ummælin eða einhverjum vondum mönnum sem hefðu framkvæmt einhverja lélega könnun. En síðan spratt upp hæstv. landbrh. og svaraði og þar með gef ég mér að málinu hafi verið beint til hans. Hafi það þar með verið tilefni málflutningsins hér að biðja menn að vanda sig í könnunum og samanburði á verði milli landa, þá get ég tekið undir það. Ég get mér þess til að það kunni að hafa verið ætlunin að leggja lið slíkri hugsun. Það er auðvitað alveg hárrétt mál að það hefur ekki mikið upp á sig að bera saman vöruverð milli landa nema þær samanburðarforsendur sem í hlut eiga séu vandlega skilgreindar, til að mynda þegar borið er saman matvælaverð í Bandaríkjunum og hér, að menn hafi þá í huga hvernig niðurgreiðslum og styrkjum til landbúnaðar í Bandaríkjunum er háttað, niðurgreiðslum á korni o.s.frv.
    Einnig er vandasamt að velja tímann og aðstæðurnar þegar könnun er tekin. Við getum bara tekið það dæmi að ef menn færu nú að bera saman verð á kartöflum á Íslandi í dag og færu í Bónus og tækju útsöluverðið eins og þar mun vera þessa dagana, þá fengju menn sjálfsagt út eitthvert lægsta kartöluverð í heimu, færu svo með það út um lönd og álfur og segðu: Þetta er alveg stórmerkilegt. Svona eru kartöflurnar ódýrar á Íslandi. Þetta er dæmi um það hvað ber að varast. En það er auðvitað rétt að matvælaverð og vöruverð hér hefur verið mjög hátt og það er mikilvægt keppikefli að lækka það, enda er mönnum að takast það í verulegum mæli, sérstaklega hvað innlendu matvöruna snertir. Og þar inni í er auðvitað til að mynda aðgerð eins og sú að fella niður eða lækka virðisaukaskatt á matvælum. Þess vegna hljóta þeir, og þar með talið alþýðuflokksmenn, sem telja það mikið keppikefli að bæta hér lífskjörin í gegnum lægra matvælaverð að styðja lægra skattþrep á mat. Annað getur ekki verið. Þróunin vinnur sömuleiðis með okkur í þessum efnum. Matvælaverðið er væntanlega hækkandi erlendis vegna GATT-samninga og af fleiri ástæðum þannig að við getum í öllu falli fagnað því að það er að dragast saman í þessum efnum milli okkar og þeirra þjóða sem við miðum okkur helst við.