Fjárframlög til stjórnmálaflokka

16. fundur
Fimmtudaginn 20. október 1994, kl. 14:08:21 (650)


[14:08]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fjárframlög til stjórnmálaflokka á þskj. 46. Eins og kemur fram á því þskj. þá er 1. flm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Allar þingkonur Kvennalistans flytja þetta mál en þar sem 1. flm. hefur veikindaleyfi þá mæli ég fyrir þessari tillögu.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa níu manna nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka. Jafnframt verði nefndinni falið að leggja mat á það hvort nauðsyn beri til að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka að öðru leyti.
    Nefndina skipi fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, fulltrúi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, fulltrúi Rannsóknastofnunar í siðfræði og fulltrúi Lögfræðingafélags Íslands auk fulltrúa frá fjármálaráðuneyti sem jafnframt sé formaður nefndarinnar.``
    Tillaga þessi var lögð fram og rædd á 117. löggjafarþingi en var ekki formlega afgreidd.
    Nokkur umræða hefur öðru hverju verið hér á landi um það hvort setja eigi lög um stjórnmálaflokka en langt er síðan um það hefur verið flutt þingmál, fyrir utan þetta mál sem flutt var eins og ég sagði óbreytt í fyrra. Eftir því sem næst verður komist var það síðast gert af hv. þm. Benedikt Gröndal sem lagði fram frumvarp til laga um stjórnmálaflokka veturinn 1975--76.
    Í greinargerð með því frumvarpi segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Undanfarin ár hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Hafa stjórnmálaflokkar orðið mjög fyrir barðinu á þeirri gagnrýni en þeir hafa verið kenndir við misrétti, misbeitingu valds, samtryggingu hagsmuna, annarlega fjáröflun og lélega frammistöðu í því meginhlutverki að stjórna landinu. Oft hefur það viðkvæði heyrst að setja þurfi lög um stjórnmálaflokka og hafa margir forystumenn flokkanna sjálfir tekið undir það.``
    Þetta er skrifað árið 1975 og það er eins og maður hafi heyrt þetta nokkrum sinnum síðan.
    Þetta frv., sem var lagt fram árið 1975, var ekki samþykkt heldur var ákveðið að skipa milliþinganefnd til að semja frv. um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka. Nefndin samdi frv. á sínum tíma en það var aldrei lagt fyrir Alþingi.
    Síðustu missirin hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Stjórnmálaflokkarnir eru þar ekki undanskildir og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að um þá gilda ekki nein skýr lög eða reglur, hvorki varðandi fjárreiður né annað, og má m.a. minnast á áskorun átta háskólakennara frá 15. september 1993 í kjölfar mikillar umræðu um fjárreiður. Í þskj. 46 er þetta birt sem fylgiskjal. Þar sem stjórnmálaflokkar og samtök eru tæki almennings til að hafa áhrif á stjórnkerfið er nauðsynlegt að eyða allri tortryggni um óeðlileg fjárhagsleg hagsmunatengsl flokkanna við fjársterk fyrirtæki eða

hagsmunasamtök.
    Á 117. löggjafarþingi voru lagðar til breytingar á frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta var rétt fyrir jólin í fyrra, í desember 1993. Þá samþykkti meiri hluti Alþingis að framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá skatti.
    Við kvennalistakonur greiddum atkvæði gegn þeirri brtt. einn þingflokka. Við töldum eðlilegt að fyrst yrðu mótaðar reglur um starfsemi stjórnmálaflokka og þar með fjárstuðning við stjórnmálaflokkana áður en það yrðu samþykkt slík ákvæði um að fjárframlög til stjórnmálaflokka yrðu frádráttarbær frá skatti. Það eru t.d. engin ákvæði um það samfara þessari breytingu að það sé gert opinbert hvaða fyrirtæki eða einstaklingar leggi fram verulegar fjárhæðir í kosningasjóði. Ég er þá ekki að tala um félagsgjöld og annað heldur er ég að tala um fjárframlög þar sem fyrirtæki fá frádrátt frá skatti.
    Í kjölfar mikillar umræðu um einmitt þetta ákvæði var ákveðið á Alþingi, það var reyndar forsrh. sem gaf það fyrirheit, að sett yrði á stofn nefnd sem mundi fara ofan í þessi mál. Með bréfi dags. 21. febr. 1994 var þingflokki Kvennalistans sent bréf sem mig langar til að fá að lesa að hluta til upp, með leyfi forseta, en þar segir:
    ,,Við 3. umr. á Alþingi um frv. til laga um breytingar í skattamálum hinn 20. des. 1993 var gefið fyrirheit um að sett yrði á fót nefnd með aðild allra stjórnmálaflokka og samtaka sem sæti eiga á Alþingi og kjósa að taka þátt í slíku starfi til að fjalla um og undirbúa frv. til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengist.``
    Það barst síðan bréf til okkar, eins og ég sagði áðan, þar sem við erum beðnar um að tilnefna í þessa nefnd sem við og gerðum þann 28. mars 1994. Síðan hefur ekkert gerst. Við höfum gengið eftir því við forsrn. hverju það sætir að nefndin er ekki kölluð saman og hefur verið þar frekar fátt um svör. Og í dag, 20. okt., er ekki enn búið að kalla þessa nefnd saman. Þetta þykir okkur mjög einkennilegt þar sem það virtist vera mikill vilji fyrir því á sínum tíma þegar þessu var breytt að þarna yrði tekið á málum.
    Ég minni á það að í yfirlýsingu sem þingflokkur Alþfl. birti og var m.a. birt í Morgunblaðinu 1. okt. sl. sem var samþykkt þingflokksins frá deginum áður þá kemur m.a. fram --- ég er þá fyrst að tala um þessa siðbótartillögu Alþfl. sem þeir lögðu fram eftir þingflokksfundi eftir miklar umræður í haust. Í einum lið þeirrar tillögu eða yfirlýsingar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkurinn hefur samþykkt að skipa starfshóp er hafi það verkefni að undirbúa á vegum þingflokksins frv. til laga um starfsemi stjórnmálaflokka sem þingflokkurinn mun beita sér fyrir að nái fram að ganga á Alþingi.``
    Þetta er einn af þeim liðum sem þarna eru og auðvitað ekkert nýtt að þingflokkar hafi komið fram með tillögur þessa efnis. Eins og ég hef hér rakið áður þá var það árið 1975 sem kom fram frv. og síðan var samið frv. í framhaldi af því en ekkert hefur gerst. Ég veit ekki hvort t.d. þingflokkur Alþfl. eða aðrir þingflokkar hafi ekki viljað tilnefna í þessa nefnd af því að forsrh. segir í bréfi sínu að það sé ekkert því til fyrirstöðu að einhver neiti að taka þátt, það er enginn skyldugur að taka þátt í slíkri nefnd. Ég hef ekki skýringuna á þessu og hefði verið fróðlegt að heyra skýringar hæstv. forsrh. á þessum seinagangi en þar sem hann er ekki hér þá er ekki svo gott að koma þeirri spurningu á framfæri við hann. Það vekur óneitanlega athygli að það skuli ekki vera byrjað á þessum málum.
    Virðulegur forseti. Ég hlýt í ljósi þess hversu margir hafa lýst stuðningi sínum við það að eitthvað sé gert í þessum málum, og þar á meðal nú síðast annar stjórnarflokkanna, að vænta þess að tillaga sem þessi nái fram að ganga á þessu þingi því það er greinilegt að það þarf að ýta á að eitthvað sé gert í þessu máli. Úr því að forsrn. getur ekki komið á stofn þessari nefnd þá hljótum við á Alþingi að ýta á það mál með þáltill. ef næst samstaða um orðalag hennar.
    Ég tek það fram að í upphafi þessarar tillögu segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa níu manna nefnd og síðan er tekið fram hverjir eigi að vera í nefndinni eins og ég sagði í upphafi. Ég tel alveg eins koma til greina ef það er til samkomulags að Alþingi sjálft kjósi í þessa nefnd og það sé ekki ríkisstjórninni sem verði falið að gera það ef það virðist vera svo að ríkisstjórninni sé ekki treystandi til að taka á málinu.
    En ég vona, virðulegur forseti, að þessi tillaga fái jákvæðar undirtektir og skjóta afgreiðslu í þinginu því ég held að það sé nauðsynlegt að taka á þessum málum fyrir næstu kosningar og fyrir næstu kosningabaráttu hefði verið nauðsynlegt að hafa lög og reglur um starfsemi stjórnmálaflokka og þeirra fjárreiður.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og allshn.