Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 21:34:34 (661)

[21:34]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. ráðherrum líður ekki vel, við heyrðum það áðan. Þeim líður ekki vel vegna þess að þeir óttast að atkvæðagreiðsla um vantraust á hvern þeirra fyrir sig muni afhjúpa það sem flesta grunar, að ríkisstjórnin er óstarfhæf vegna innbyrðis átaka. Henni hefur gersamlega mistekist að ná ýmsum helstu markmiðum sínum. Hún stefndi í upphafi að því að tryggja hallalausan ríkisbúskap og viðunandi atvinnuástand en hvort tveggja hefur mistekist hrapallega. Það er þjóðarnauðsyn að gengið verði til kosninga þegar í desember og ný ríkisstjórn taki við um hæstu áramót. Þess vegna er vantraust flutt á hæstv. forsrh. Vantraust á hann er vantraust á ríkisstjórnina alla.
    Undir venjulegum kringumstæðum hefði sú atkvæðagreiðsla nægt en svo er ekki að þessu sinni. Ákveðnir ráðherrar hafa legið undir þungu ámæli fyrir afglöp í störfum sínum, ekki aðeins frá stjórnarandstöðu heldur og frá stjórnarsinnum. Því er lýðræðisleg nauðsyn að staða þeirra gagnvart þinginu sé könnuð sérstaklega í atkvæðagreiðslu og því verður ekki trúað að ríkisstjórnin þori ekki að láta atkvæðagreiðsluna fara fram í kvöld.
    Embættisferill hæstv. félmrh. hefur mjög verið til umræðu í fjölmiðlum. Hann hefur ekki verið sakaður um lögbrot en störf hans bera vott um dómgreindarleysi. Umræður um hugsanlega afsögn hans risu svo hátt í flokk hans sjálfs að formaður flokksins, hæstv. utanrrh., varð að vanrækja þá starfsskyldu sína að ávarpa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til þess að geta helgað sig þessu vandræðamáli. Raunar hefur formaðurinn sjálfur legið undir þungu ámæli þótt með öðrum hætti sé. Sem ráðherra starfar hann í umboði Alþingis og ríkisstjórnar en hann hefur þó hvað eftir annað gengið þvert á ályktanir Alþingis í ummælum sínum á erlendum vettvangi.
    Hinn 7. maí 1993 fól Alþingi honum að undirbúa gerð tvíhliða samnings við Evrópusambandið með hliðsjón af hugsanlegri inngöngu Noregs, Svíþjóðar og Finnlands í sambandið. Þessu verkefni hefur ráðherrann í engu sinnt. Þvert á móti hefur hann aftur og aftur lýst því yfir við forustumenn sambandsins að von gæti verið á umsókn frá Íslendingum um fulla aðild. Vissulega má til sanns vegar færa að allir séu frjálsir orða sinna. En það gildir þó ekki um ráðherra sem talar fyrir hönd þjóðar sinnar á erlendri grund. Villandi yfirlýsingar, sem gefa ranga mynd af vilja Alþingis og ríkisstjórnar, geta skaðað hagsmuni þjóðarinnar og gerðu það vafalaust í þessu tilviki. Að sjálfsögðu er lítið mark tekið á óskum Alþingis og ríkisstjórnar um nýjan tvíhliða samning Íslands við Evrópusambandið meðan utanrrh. flytur allt annan boðskap í einkaviðræðum við forustumenn sambandsins. Einleikur ráðherra þvert á vilja Alþingis og ríkisstjórnar er meira en næg ástæða til að honum sé vikið frá störfum.
    Hæstv. forsrh. lét sér þó lengi vel nægja að svara ráðherranum með niðrandi orðavali um ,,einkaskoðanir utanrrh.`` og nefndi yfirlýsingagleði hans sumarbólu. Hann virtist gera sér vonir um að bólusótt ráðherrans hjaðnaði bráðlega. En því var ekki að heilsa. Hæstv. utanrrh. hóf að gylla fyrir þjóðinni í krafti hálfrar stöðu sinnar hvað Norðmenn hefðu gert hagstæðan sjávarútvegssamning við Evrópusambandið. Þessu mótmæltu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem kynntu sér samninginn, þar á meðal hæstv. sjútvrh., enda blasir við að Norðmenn eiga á hættu að missa yfirráð sín yfir fiskimiðum sínum að nokkrum árum liðnum þegar aðlögunartímanum lýkur. Loksins kom að því að hæstv. forsrh. glataði þolinmæði sinni og lýsti því yfir 25. sept. sl. að slíkum mönnum væri, svo að notuð séu hans óbreyttu orð, ekki treystandi fyrir því að semja um okkar fiskveiðimál ef þeir héldu að þessi samningur væri góður.
    Við stjórnarandstæðingar tökum sterklega undir með hæstv. forsrh. að slíkum mönnum er ekki treystandi og nú fær hann tækifæri til að standa við orð sín.
    Bæði í Noregi og Svíþjóð hefur meiri hluti fólks verið andvígur aðild að Evrópusambandinu. Nú er hins vegar reynt að knýja fram jákvæð úrslit í Svíþjóð með þeim rökum að Finnar hafi þegar samþykkt. Síðan verður reynt að fá Norðmenn til að skipta um skoðun því að Svíar hafi samþykkt. En í öllum löndunum þremur gildir að í norðurhéruðum þeirra er yfirgnæfandi meiri hluti á móti. Aðstæður á Íslandi eru einmitt miklu skyldari þessum héruðum. Munurinn er hins vegar sá að þar kunna þéttbýl héruð í suðri að draga norðurhéruðin með sér gegn vilja þeirra en við Íslendingar höfum sjálfstæði til að segja nei.
    Upplausn Evrópsks efnahagssvæðis, sem nú blasir við og veldur margháttuðum flækjum, er sönnunin fyrir því að EES-samningurinn var mistök. Við áttum frekar eftir að leita eftir tvíhliða samningi við Evrópusambandið. Fjöldamargt í EES-samningnum á að vísu heima í tvíhliða samningi. Það höfum við alltaf sagt. En munurinn á tvíhliða samningi og EES-samningnum felst m.a. í því sem við gagnrýndum hvað mest við gerð hans, þ.e. í yfirþjóðlegum stofnunum, skerðingu dómsvalds og árekstri við stjórnarskrá.
    Ferill ríkisstjórnarinnar er senn á enda. Hennar verður helst minnst í sögunni fyrir að í tíð hennar magnaðist upp stórfellt atvinnuleysi, margfalt á við það sem verið hafði í áratugi á undan. Þegar hæstv. ráðherrar tala um atvinnuleysið er eins og þeir séu að ræða um óvænt norðanáhlaup sem senn gangi yfir og þeir beri enga ábyrgð á. En er það svo? Atvinnuleysi er alvarlegur þjóðfélagssjúkdómur sem breiðir úr sér eins og drep í þjóðarlíkamanum ef ekki er snúist til varnar. Efnahagslífið lendir í vítahring, minnkandi tekjur fólksins leiða til gjaldþrots fyrirtækja, enn meiri samdráttar, aukins atvinnuleysis, enn meiri neyðar. Enginn heldur því fram að atvinnuleysi sé viljaverk hæstv. ríkisstjórnar. En sök hennar felst í afskiptaleysi, forustuleysi. Hún hefur enga stefnu haft í atvinnumálum aðra en þá að láta reka á reiðanum. Hún byrjaði feril sinn á því að hækka vextina verulega og hélt þeim háum fyrstu tvö árin. Þegar hún loksins skildi að þeim varð að ná aftur niður var skaðinn skeður.
    Ríkisstjórnin hefur engar áætlanir gert til að snúa vörn í sókn og ekkert frumkvæði haft til að styðja við nýjungar í atvinnulífinu. Allt átti að koma af sjálfu sér. Skýringin er sú að hún treysti á kreddukenningar frjálshyggjunnar og trúði því að lögmál peninganna leysti allan vanda. Nú að þremur árum liðnum sjáum við afleiðingar þessarar stefnu ef stefnu skyldi kalla. Atvinnuleysið hefur magnast ár frá ári með ógnvænlegum hraða. Það var rúmt 1% þegar stjórnin tók við og er nú um 5%. Vonir hafa staðið til að botninum væri náð og betri tíð væri í vændum en fyrirætlun stjórnvalda samkvæmt fjárlagafrv. næsta árs, um 25% niðurskurð verklegra framkvæmda, gerir þá von að engu. Atvinnuleysið hefur skapað mikla neyð. Á sama tíma hafa kjör launafólks rýrnað mjög verulega. Játa verður hreinskilningslega að atvinnuleysið hefur lamað baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum. Fjölskyldufólk sem vinnur myrkranna á milli nær ekki endum saman hvað sem það reynir. Skuldir heimilanna hafa vaxið hröðum skrefum seinustu þrjú árin og vanskil hjá húsbyggjendum hafa aukist gríðarlega.
    Upplýst er að um 10 þúsund hjón og einstaklingar skuldi 3 milljónir eða meira umfram eignir sínar. Gjaldþrot hjá venjulegu fjölskyldufólki, sem hefur ekki stundað áhætturekstur af neinu tagi, er daglegur viðburður. Að sjálfsögðu ber sérhverri ríkisstjórn að stuðla að því með skattastefnu sinni að draga úr neyðinni eftir því sem nokkur kostur er en því hefur ríkisstjórnin ekki sinnt. Þvert á móti hefur hún stráð salti í sárin. Tekjuskattar hafa stórhækkað og mest eru viðbrögðin fyrir fólkið með lægstu tekjurnar þar sem skattleysismörkin hafa lækkað mjög verulega. Síðan bæta þeir gráu ofan á svart og storka láglaunafólkinu með því að afnema þann litla hátekjuskatt sem kominn var á. Jafnframt er tekjuskattur fyrirtækja lækkaður um hálfan milljarð. Og enn ætla stjórnarherrarnir að koma sér hjá því að leggja skatt á tekjurnar af 160 milljarða skuldabréfaeign. Vegna orða formanns Alþfl. rétt áðan verður að minna á þá ömurlegu staðreynd að Alþfl. hefur nú í tveimur ríkisstjórnum heykst að leggja á hátekjuskatt og fjármagnstekjuskatt.
    Virðulegi forseti. Góðir hlustendur. Ég er þess fullviss að mikil meiri hluti fólks, þar á meðal tugþúsundir manna sem kusu Sjálfstfl. og Alþfl. í seinustu kosningum, áttar sig á því að þannig verður ekki áfram haldið. Réttlætiskennd almennings er herfilega misboðið. Við verðum að rífa okkur út úr vítahringnum með nýrri stjórnarstefnu og allt öðrum áherslum í efnahags- og skattamálum en nú er fylgt. Það

ástand sem hér hefur skapast, einstætt atvinnuleysi og sívaxandi neyð, er meira en næg ástæða fyrir sérhvern ráðherra þessarar stjórnar til að segja af sér. Einn þeirra hefur þegar gert það og aðrir hafa enn meiri ástæðu til þess. Þess vegna er þessi tillaga flutt. --- Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.