Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 22:08:24 (669)

[22:08]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Með þessari tillögu er ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að gengið verði til atkvæða um vantraust á ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. gat þess í ræðu sinni að tillaga stjórnarandstöðunnar yrði þingræðinu til skaða. Sú tillaga sem hér er borin upp til atkvæða stríðir gegn lýðræðislegum hefðum. Ríkisstjórnin vill ekki gefa einstökum þingmönnum stjórnarliðsins kost á að standa við orð sín. Hún treystir því ekki að hún hafi stjórn á sínu liði. Hún virðir ekki leikreglur lýðræðisins. Það er áfall fyrir þingræðið og lýðræðið í landinu að ríkisstjórnin skuli ætla að beita meiri hluta sínum með þeim hætti sem hér er að verða til að koma í veg fyrir að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar verði borin upp. Ég spyr enn: Á hvaða leið eru íslensk stjórnmál? Ég mótmæli þessum yfirgangi. Ég segi nei.