Vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

17. fundur
Mánudaginn 24. október 1994, kl. 22:09:39 (670)

[22:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom fram fyrir tæpum hálfum mánuði síðan. Í samræmi við venjur þingsins hefur forseti Alþingis ekki gert athugasemd við þessa tillögu. Starfsmenn Alþingis hafa líka talið hana vera í samræmi við þingvenjur. Engu að síður gerist það hér í kvöld að forsrh. Davíð Oddsson flytur tillögu um það að tillagan um vantraustið brjóti gegn starfsháttum Alþingis. Það verður fróðlegt að vita hvort forseti Alþingis ætlar að greiða hér á eftir atkvæði með vantrausti á hennar eigin dómgreind. Hitt er svo alvarlegra, hæstv. forsrh., að með þessum tillöguflutningi hæstv. forsrh. er verið að skapa það fordæmi að Alþingi fái hugsanlega aldrei að greiða atkvæði um vantraust á ríkisstjórn eða einstaka ráðherra heldur verði því ávallt vísað frá. Skref hæstv. forsrh. hér í kvöld er þess vegna atlaga að þingræðinu og lýðræðinu. Og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar mun sitja áfram án þess að það komi í ljóst hvort hún hafi stuðning á Alþingi. Ég segi nei við einstæðri atlögu hæstv. forsrh. að þingræðisvenjum hér á Alþingi.