Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 13:50:07 (678)

[13:50]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spyr hvort þjóðin hafi efni á annars flokks háskóla. Svarið við spurningunni er auðvitað afdráttarlaust nei. Það er sannfæring mín að Háskóli Íslands sé góður háskóli. Ekkert bendir til annars. Nemendur sem útskrifast frá Háskóla Íslands sækja framhaldsnám til bestu háskóla erlendis og standa sig þar með prýði. Framlag kennara við skólann til rannsókna er ómetanlegt fyrir íslenskt þjóðfélag, atvinnulíf og menningu.
    Fáum er það trúlega eins ljóst og mér sem ráðherra þessa málaflokks hvert mikilvægi Háskóla Íslands og raunar alls háskólastigsins er þessu þjóðfélagi. Það gefur hins vegar auga leið að efnahagsástandið í þjóðfélagi okkar og raunar í ríkjunum í kringum okkur hefur sett ákveðin takmörk. Aðhaldsaðgerðir hafa gert það að verkum að stofnunum hefur verið gert að grípa til erfiðra sparnaðaraðgerða og forgangsraða verkefnum vegna takmarkaðs fjármagns. Þannig hefur Háskóli Íslands, eins og aðrar stofnanir, þurft að forgangsraða verkefnum sínum. Mér er það fullljóst að háskólinn hefur mætt fjárhagsvandanum með ábyrgri fjármálastjórn eins og nýlega hefur verið bent á í samþykkt háskólaráðs.
    Þegar litið er á fjárframlag til háskólans á næsta ári er það að segja að það er hið sama og í ár þegar tekið hefur verið tillit til flutnings Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu, eða tæplega 1,5 milljarðar. Hins vegar fer nemendum við háskólann fjölgandi. Þess ber þó að geta að fjölgunin er nær eingöngu í tveimur deildum háskólans, heimspekideild og félagsvísindadeild. Það má segja að samdráttar vegna minni fjárframlaga til háskólans á nemanda gæti fyrst og fremst í þessum tveimur deildum.
    Þess ber einnig að geta að nokkur aukning hefur orðið á fjárframlagi til háskólastigsins í heild á undanförnum árum. Háskóli hefur verið settur á laggirnar á Akureyri og hefur hlutfallslega verið veitt meira fé til hans og annarra skóla á háskólastigi en Háskóla Íslands. Hvað Háskólann á Akureyri varðar er þar um að ræða nýjan skóla sem verið hefur í örri þróun og við Kennaraháskólann hafa á undanförnum árum verið teknar upp ýmsar nýjungar.
    Ég vil geta þess hér að fjárframlög hafa verið aukin til ýmissa málaflokka sem snerta starf háskólans beint eða óbeint. Tekið hefur verið myndarlega á málefnum Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns. Á yfirstandandi ári er samanlagt framlag til bókasafnanna tveggja um 43,5 millj. kr. hærra en hinna tveggja safnanna en það þarf þó vissulega að hækka meira.
    Ég hef einnig beitt mér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar og fengið til þess góðan stuðning að efla rannsókna- og þróunarstarf í landinu, bæði innan háskóla og utan. Í því sambandi minni ég á að sl. vor lagði ég fyrir Alþingi frv. til laga um Rannsóknarráð Íslands, frv. sem varð að lögum. Nokkrar breytingar hafa átt sér stað með nýjum lögum um Rannsóknarráðið. Helstu breytingar á fjárveitingum eru að á árunum 1994 og 1995 er gert ráð fyrir að tæknisjóður fái 85 millj. af sérstöku átaki á sviði rannsókna- og þróunarstarfsemi þannig að heildarfjárveiting er komin í 200 millj. kr. og hinn gamli rannsóknasjóður þannig tvöfaldast. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem ég hef beitt mér fyrir sem ráðherra menntamála að efla rannsóknir í landinu.
    Þá hef ég ekki síður reynt að beita mér fyrir því að efla rannsóknastarf sem snýr að stúdentum. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur verið festur í sessi og hann hefur verið starfræktur í tvö ár. Þá hefur einnig að frumkvæði mínu verið stofnaður sérstakur sjóður, rannsóknanámssjóður, til styrktar rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fjármagn til þess er til viðbótar því fjármagni sem þegar er varið til annars rannsóknastarfs í landinu. Á fjárlögum 1994 fékk sjóðurinn rúmar 25 millj. kr. og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir sömu upphæð.
    Það er vissulega vont að geta ekki veitt meira fjármagn til skólakerfisins til þess að auka námsframboð fyrir ungt fólk. En þó er það verri kostur að steypa komandi kynslóðum í botnlausar skuldir. Því tel ég að breyta eigi forgangsröðun þannig að varið verði hlutfallslega meira fé af fjárlögum ríkisins til skólamála, þar á meðal til Háskóla Íslands, en nú er gert. Um slíkt þarf þó að nást pólitískt samkomulag, bæði innan ríkisstjórnar og á Alþingi. Það er ábyrgðarlaust hjal að tala um aukningu til skólamála, feli það í sér að sú aukning verði skrifuð á reikning komandi kynslóða. Auknu fjármagni verður því aðeins náð að fjármagn sé tekið af öðrum kostnaðarliðum ríkisins. Innan menntmrn. liggja því miður engar milljónir á lausu. Fjármagn verður ekki tekið af grunnskóla og fært til Háskóla Íslands. Fjármagn verður ekki tekið af framhaldsskóla og fært til Háskóla Íslands. Þá fæ ég heldur ekki séð að Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskólinn og Tækniskólinn, svo dæmi séu nefnd, séu aflögufærir. Þetta þýðir augljóslega breytta forgangsröðun frá því sem nú er. Að slíkum breytingum á forgangsröðun viðfangsefna fjárlaga vil ég gjarnan stuðla.
    Fyrri lokaspurningu hv. fyrirspyrjanda hef ég þegar svarað og síðari spurningunni er auðsvarað og

felst raunar í því sem ég hef þegar sagt. Það er ekki stefnan að flytja æðri menntun héðan úr landi. Þvert á móti hefur verið unnið að því að efla nám til meistaragráðu og doktorsprófs.