Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 13:57:21 (680)

[13:57]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að málefni háskólans skuli vera hér til umræðu í dag. Ég gef mér það að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem biður um þessa utandagskrárumræðu, geri það með því hugarfari að beina kastljósinu að málefnum háskólans og menntunarmálum almennt. Ég vil taka undir með þeim aðilum sem segja: Menntamál á að setja í öndvegi. Þar á ég við menntun þjóðfélagsþegna á öllum skólastigum. Það er staðreynd að allt of þröngt hefur verið búið að skólakerfi landsmanna undanfarna áratugi, ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur almennt á undanförnum árum. Fjárveitingar á virkan nemanda t.d. í Háskóla Íslands hafa lækkað um 30% síðustu 7 ár. Fjárveitingar hófu að lækka árið 1989. Ég tel tímabært ekki aðeins háskólans vegna heldur þjóðarinnar vegna að hér fari menn, sama úr hvaða stjórnmálaflokki þeir koma, að ræða á vitrænum nótum um menntamál.
    Ég get gagnrýnt þau vinnubrögð að skera niður jafnvel tilviljunarkennt frá ári til árs í menntakerfinu án allrar framtíðarsýnar. Og það er mergur málsins að það vantar alla langtímahugsun hér í þessu þjóðfélagi og á því hefur menntakerfið allt fengið að kenna.
    Ég vildi óska að við hefðum nú á þeim þrengingartímum, sem þjóðin öll hefur þurft að ganga í gegnum og þurft að taka á sig auknar byrðar, haft í varasjóði þá milljarða sem þessi þjóð og stjórnmálamenn hennar hafa á undanförnum áratugum dælt út um fyrirtæki úr opinberum sjóðum jafnvel þótt um vonlausan rekstur hafi verið að ræða, í fiskeldi, loðdýrarækt og margt fleira. Þar hafa pólitískir hagsmunir verið látnir ráða en ekki þjóðarhagsmunir. Í nafni byggðastefnu hefur fyrirtækjum á vonarvöl verið lánað áfram. (Forseti hringir.) Í nafni atvinnusköpunar hefur fé verið ausið í fyrirtæki með engan rekstrargrundvöll. Frá tímabilinu 1985--1993 hafa um 40 milljarðar tapast í gjaldþroti fyrirtækja. Þess vegna tek ég undir með þeim sem segja: Menntamál í öndvegi, það er löngu tímabært.