Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:00:05 (681)

[14:00]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er útbreidd skoðun að góð menntun og öflugt menntakerfi sé einhver besta trygging sem til er fyrir góðu mannlífi, framförum, atvinnusköpun og úrlausn þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir í veröldinni. Hér á landi er fagurlega talað um menntun á hátíðarstundum en þegar betur er að gáð hafa Íslendingar um árabil varið allt of litlu fé til rannsókna- og vísindastarsemi auk þess sem skólakerfið hefur verið sársvelt um árabil enda eru kjör háskólamanna eftir því.
    Frá Háskóla Íslands berast nú sterkar áhyggjuraddir vegna þeirra sjö mögru ára sem háskólinn hefur nú gengið í gegnum. Kennsla hefur verið skorin niður, hópar stækkaðir, valnámskeið eru af skornum skammti og allt annað er skorið við nögl. Allmargir nemendur verða að leita til útlanda til að ljúka námi sínu vegna skorts á námskeiðum. Svar ríkisstjórnarinnar er, eins og sjá má í fjárlagafrv. ársins 1995: Takmarkið aðgang, fækkið nemendum.
    Það er verið að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla en við það verður ekki unað. Hæstv. menntmrh. sagði á fundi námsmanna í Háskóla Íslands í síðustu viku að allir hafi orðið að taka á sig skerðingu í þeim samdrætti sem þjóðin hefur gengið í gegnum. Þetta er ekki rétt. Það var hægt að forgangsraða en það var ekki gert. Þess í stað var skorið og skorið en nú er komið annað hljóð í menntmrh. og því ber að fagna.
    Það er löngu tímabært að menntun fái þann sess sem henni ber og nú á Alþingi að taka sig á með því að hækka fjárveitingar til Háskóla Íslands, og ég veit um peninga, hæstv. menntmrh.: Hvernig væri að halda í hátekjuskattinn og láta þær 300 millj. sem hann gefur renna til Háskóla Íslands? Oft var þörf en nú er nauðsyn.