Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:04:56 (683)

[14:04]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Háskóli Íslands er að lenda í kreppu. Það hefur komið fram í umræðum um fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar á Alþingi, það hefur komið fram í fjölmiðlum og á fundi í Háskólabíói í síðustu viku og þar var tekið undir það af sjálfum menntmrh. Háskólinn er raunar ekki einn í þessari umræðu, skólakerfið í heild er til skoðunar og þar verður að auka framlag á næstu árum. En Háskóli Íslands er tiltölulega ung stofnun og hefur verið stolt okkar Íslendinga. Þar hefur farið fram ótrúlega fjölbreytt kennsla og rannsóknastarf þrátt fyrir smæð skólans og gífurlegar kröfur sem til hans hafa verið gerðar um fjölbreytt starf og skyldu hans sem þjóðarskóla til að taka við hverjum þeim sem sækir um og hefur til þess tilskilinn undirbúning.
    Um 5.500 nemendur stunda nú nám við Háskóla Íslands og þar vinna um 500 starfsmenn að viðbættum stundakennurum. Skólagjöld nemenda við Háskóla Íslands eru nú þegar um 100 millj. á ári og þar verður ekki lengra gengið ef jafnrétti til náms er haft að leiðarljósi. Árangur í Háskóla Íslands er gjarnan borinn saman við önnur lönd þrátt fyrir minni mannafla hér. Hlutfall kennara og aðstoðarmanna er hér einn aðstoðarmaður á hverja tíu kennara en algengt hlutfall erlendis er einn aðstoðarmaður á hvern kennara.
    Háskólinn fær það orð úr ráðuneyti menntamála að þar sé góð stjórn á fjármálum, þar sé forgangsröðun í lagi.
    Framlög til háskólans verða óbreytt að krónutölu fjórða árið í röð samkvæmt fjárlagafrv. en á sama tíma fjölgar nemendum þar stöðugt eins og fram hefur komið og það er ekki endalaust hægt að hagræða.
    Hér hefur verið nefndur Háskólinn á Akureyri og ber að þakka það starf sem þar hefur verið unnið. Þar er vel unnið en það er ekki þar með sagt að þó að vel hafi tekist til með Háskólann á Akureyri þá eigi eða þurfi að svelta Háskóla Íslands og hefur aldrei staðið til.
    Ég ætla svo sem ekki að tjá mig hér um framtíðarsýn hv. 11. þm. Reykn. þó vert væri, (Forseti hringir.) en hversu vel sem við viljum búa að háskólanum og hversu vel sem við viljum búa að menntun og rannsóknastarfi þá getur það ekki komið að öllu leyti í veg fyrir það að við styðjum við þróun og

rannsóknir í atvinnuvegum þjóðarinnar.