Málefni Háskóla Íslands

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:16:30 (688)

[14:16]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram sem hafa verið málefnalegar. Ég hlýt hins vegar að lýsa nokkurri óánægju með málflutning hæstv. menntmrh. þar sem hann meira að segja tók ekki það mikið upp í sig að telja að hann treysti sér til að leiðrétta eitthvað tölur þær sem birtar eru í fjárlagafrv. og varða Háskóla Íslands.
    Hæstv. menntmrh. talaði um það að aukning fjármagns til skólamála bitni á næstu kynslóð eða komandi kynslóðum. Mér finnst miklu nær að snúa málinu við og segja: Það að auka ekki framlög til skólamála bitnar á komandi kynslóðum.
    Hæstv. menntmrh. talaði um forgangsröðun. En það er nú einu sinni svo að þegar maður fer yfir feril þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr þá hefur flatur niðurskurður verið hennar ær og kýr. Nú þegar kjörtímabilið er á enda er auðvelt að koma hér og tala um að það eigi að forgangsraða. Þessu hefði hæstv. menntmrh. átt að átta sig á strax við upphaf kjörtímabilsins og þá stæðum við kannski betur í dag ef það er rétt og ég vil trúa því í lengstu lög að hann vilji menntamálum í landinu vel. En ræða hans gaf til kynna að það sem ég hef áður haldið fram um hæstv. ríkisstjórn, að hún sé lokuð inni í litlum kassa, á við full rök að styðjast þar sem ekki var að heyra að hún þekki aðstæður sem ríkja í Háskóla Íslands.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði þannig að það var eins og hann reiknaði með því að það væri sérstaklega ósk þeirrar sem hér stendur að það geti ekki farið fram alvöruumræða um Háskóla Íslands heldur væri knappur tími og það er rétt. En það er nú einu sinni svo hér á hv. Alþingi að þessi hálftíma umræða er þannig samkvæmt þingsköpum að við getum fengið hana án fyrirvara. Mér þótti brýnna að fá fram umræðu strax í dag þó svo að ekki hafi náðst mikil umræða um málið. Við höfum alla vega heyrt það að hæstv. menntmrh. ætlar ekkert að leiðrétta framlög til HÍ á fjárlagafrv. og það er þá gott að vita það.