Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 14:59:53 (693)

[14:59]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nú kannski ekki ástæðu til þess að hafa langa umræðu um útlit varðandi kjarasamninga á næsta ári og til þess gefst náttúrlega ekki tækifæri í andsvörum. Ég er þeirrar skoðunar að kröfur launafólks séu með þeim hætti nú að það sé bjartsýni að ætla að þær verði rúmaðar innan þess ramma sem fjárlagafrv. gefur. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en varðandi húsakaup utanrrn. er alveg rétt að húsnæðið á Rauðarárstígnum var í eigu tveggja sjóða. Það var í eigu Framkvæmdasjóðs og starfsemi hans var lögð undir Lánasýslu ríkisins. Hins vegar var sá háttur ekki hafður á að Lánasýsla ríkisins flytti í húsnæði Framkvæmdasjóðs sem stóð autt, heldur flutti Framkvæmdasjóður þar inn, niður á Hverfisgötu, og leigir þar samkvæmt upplýsingum síðan í vor á 600 kr. fermetrann á meðan Ríkiskaup leigir á 325 kr. inni í Borgartúni 7. Ég held að t.d. þetta dæmi sýni að allar þessar vendingar með húsnæði ráðuneyta þurfi að koma inn á borð fjárveitingavaldsins og ræðast þar.
    Í öðru lagi má geta þess að auðvitað þarf Byggðastofnun að nota þessar 300 millj. kr. til að kaupa og koma sér fyrir á öðrum stað.