Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 15:02:11 (694)

[15:02]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þegar langar umræður urðu um fjárlagafrv. fyrir skömmu var haldinn sameiginlegur fundur fulltrúa þingflokka og forseta þingsins. Það var niðurstaða á fundinum að forsetar tóku að sér að ræða við hæstv. ríkisstjórn um það vandamál að ráðherrar væru ekki viðstaddir umræður um fjárlög, fjáraukalög eða lánsfjárlög eða önnur þau meiri háttar frv. þar sem ábyrgð þeirra á einstökum málaflokkum er mikilvægur þáttur í umræðunni. Ég vænti þess, virðulegi forseti, að forsetar hafi nú þegar tekið þetta upp við ríkisstjórnina því það var alveg ljóst að þetta var mikið vandamál þegar fjárlögin voru til umræðu. Nú sjáum við aftur í dag þegar fjáraukalagafrv. kemur til umræðu að nákvæmlega sama vandamálið er fyrir hendi. Hæstv. fjmrh. situr hér einn en enginn kostur gefst á að ræða t.d. við hæstv. heilbrrh., hæstv. viðskrh. eða hæstv. félmrh. svo nokkrir séu nefndir. Þetta er sérstaklega bagalegt vegna þess að þegar umræðan fór fyrr fram um fjáraukalagafrv. beindi ég ýmsum spurningum til viðskrh. Nú er hann ekki hér og ætlar þá væntanlega ekki að svara þeim. Ég vona satt að segja að þetta verði ekki svona áfram í vetur því þetta er illlíðandi. Þar sem ríkisstjórnin er farin að flytja sérstakar tillögur um virðingu Alþingis er auðvitað mikilvægt að ríkisstjórnin átti sig á því að virðing Alþingis felst m.a. í því að ráðherrar, sem bera ábyrgð gagnvart Alþingi, séu viðstaddir þegar á að ræða mál.
    Mér er t.d. nokkur vandi á höndum í þessari umræðu, virðulegur forseti, því ég beindi spurningum til hæstv. viðskrh. Ég beindi reyndar líka spurningum til hæstv. starfandi forsrh. Ég veit ekki hvort hann hefur komið þeim spurningum áleiðis til hæstv. forsrh. Ég get í sjálfu sér endurtekið þær spurningar í umræðum um lánsfjárlagafrv. fyrir 1995 á eftir en ég vildi inna hæstv. forseta eftir því hvort þær viðræður, sem forsetar tóku að sér við ríkisstjórnina um viðveru ráðherranna í umræðum á Alþingi, hafi farið fram og hverjar niðurstöður þeirra eru.