Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:07:42 (703)

[16:07]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú er staðan sú hjá ríkissjóði að hann þarf ekki að vera fyrirferðarmikill á lánsfjármörkuðum það sem eftir lifir þessa árs og mun ekki hafa áhrif á þau kjör hvað það varðar. Það sem ég nefndi um húsnæðisbréfin er þetta: Þar hafa forráðamenn lífeyrissjóða bitið sig fast í það að þar skyldu verða önnur kjör en á verðbréfum ríkisins. Við höfum ekki gert neinn mun þar á. Út af fyrir sig má segja að það sé rétt hjá hv. þm. að óþarft hefði verið að Húsnæðisstofnun byði jafnört út bréf á meðan þetta viðhorf var uppi. Ég tel koma fyllilega til álita eins og ég hef sagt að þessi fjármögnunarþáttur færist alfarið yfir til ríkisvaldsins og húsnæðisbréfin sem sérstakur lánaflokkur hverfi. Ég mundi ekkert sjá eftir þeim sérstaklega. Hins vegar var viðhorfið þannig hér áður að það væri ákveðið samhengi milli fjármögnunaraðilans og fjármögnunar á þeim sérstöku verkefnum sem Húsnæðisstofnun tekur til. En ef það er ekki sjónarmið fjárfestanna þá er það samhengi ekki lengur mikils virði og geta menn þá hugsað sér að ganga þar í aðrar áttir.