Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:09:14 (704)

[16:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sé það rétt hjá hæstv. forsrh. að ríkissjóður hafi enga þörf á því að vera fyrirferðarmikill á verðbréfamarkaðnum þá skil ég ekki, hæstv. forsrh., hvers vegna ríkissjóður birtir hér dag eftir dag í síðustu viku heilsíðuauglýsingar í víðlesnustu dagblöðum landsins til að kynna útgáfu ECU-bréfanna og hvetja menn til að kaupa þessi bréf. Það var satt að segja enginn á markaðnum að gera sig gildandi hér í síðustu viku nema ríkissjóður. Með þessum líka flenniauglýsingum og varð það tilefni til umræðna hér í þinginu í fjarveru hæstv. forsrh., og ekki víst að hann hafi frétt af því, hvort beljan væri íslensk eða erlend sem á þessum myndum er þar til formaður Búnaðarfélagsins upplýsti að hún væri íslensk. Þannig að ég er eiginlega alveg hættur að skilja samhengið í fjármálastefnunni og vaxtapólitíkinni og verðbréfastefnunni hjá ríkissjóði ef hæstv. forsrh. er þeirrar skoðunar að ríkissjóður þurfi ekki að vera fyrirferðarmikill en hæstv. fjmrh. ryðst fram með þessum líka gassagangi og leggur dag eftir dag heilar síður í dagblöðum landsins undir kynningu á þessum bréfum sem síðan hæstv. forsrh., að ég tel með réttu, hefur nú upplýst að hann hafi haft alvarlegar athugasemdir um að væru gefin út.