Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:10:56 (705)

[16:10]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað um fjármögnun húsnæðiskerfisins. Raunar hefur hæstv. forsrh. farið yfir nokkur þau atriði sem ég hugðist drepa á. En almennt vil ég segja að það er auðvitað engin tilviljun að nokkrar kröfur eru gerðar til lífeyrissjóðanna, sem eru langstærstu eigendur fjármagns í þessu litla landi okkar, þegar kemur að húsnæðislánakerfinu. Þar eru ástæðurnar sögulegs eðlis. Þarna á milli hefur verið samspil, lengst af með beinum samningum Húsnæðisstofnunar og lífeyrissjóðanna samkvæmt ákveðnum skilmálum sem þar giltu um. Um það var hins vegar tekin ákvörðun fyrir ekki margt löngu að þessi fjármögnun færi alfarið um markað en beinir samningar um kjör og fyrirkomulag tilheyrðu liðinni tíð.
    Nú er það svo, þrátt fyrir allt, um ágæti þessa verðbréfamarkaðar og peningamarkaðar hér á landi að hann er ákaflega fábreyttur. Hann er ákaflega einfaldur í eðli sínu. Stórkaupendur að fjármagni með þessum hætti eru ekki allt of margir. Nú hins vegar bregður svo við, eins og hæstv. forsrh. gat hér réttilega um, að einhverra hluta vegna hafa lífeyrissjóðirnir fylgt þeirri stefnu að stórum hluta til á þessu ári að kaupa ekki pappíra frá Húsnæðisstofnun ríkisins á sama verði og hefðbundna ríkispappíra. Ég hef átt viðræður við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna um þetta og einnig Seðlabanka Íslands um hugsanlegar ástæður þessa. Þær eru mér ekkert allt of ljósar. Ýmsum tæknilegum útfærslum bréfanna hefur verið borið við sem hluta af skýringunum. Forsvarsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa reynt að koma til móts við ábendingar og tilmæli forsvarsmanna lífeyrissjóðanna um breytingar á lánstíma og fyrirkomulagi bréfanna o.s.frv. Þrátt fyrir það hefur það ekki reynst nóg og þessi kaup hafa ekki gengið fram eins og vonir stóðu til miðað við það 5% mark sem ríkissjóður hefur bundið sig við. Þess vegna hefur um tíma þessi nauðsynlega lína milli lífeyrissjóðanna annars vegar, þess fjölmenna hóps sem þar stendur að baki, og húsnæðiskerfisins hins vegar rofnað. Og þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að ríkissjóður hefur fjármagnað húsnæðislánakerfið. Á því er fyrst og síðast stigsmunur en ekki eðlismunur. Ég leyni því hins vegar ekkert að það eru mér vonbrigði að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hér á landi skuli ekki reyna að ganga talsvert langt fram í því að ná um það sátt og samkomulagi að fjármagna húsnæðislánakerfið. Nú er það þannig að lífeyrissjóðunum hér á landi hefur tekist að ávaxta sitt pund býsna vel á síðustu missirum. Raunar er að verða gjörbreyting á stöðu þeirra margra vegna þeirra hagstæðu skilyrða sem þeir hafa búið við og það er vel. En spurningin er hins vegar í þessu sambandi hvort forsvarsmenn lífeyrissjóðanna verði ekki að líta til fleiri þátta, þ.e. þeirra þátta að koma til liðs við ríkisvaldið og aðra þá aðila, verkalýðshreyfinguna ekki síst, sem er auðvitað náskyld þessum sömu lífeyrissjóðum og eigendur þeirra, að halda niðri vöxtum í landinu til hagsbóta fyrir launafólk. Þess vegna taldi ég og trúði því lengst af að lífeyrissjóðirnir kæmu inn í þessa fjármögnun með þeim hætti sem upp var lagt með. En það hefur því miður ekki orðið enn. Ég bind hins vegar vonir við að það gerist.
    Ég er nú raunar það gamaldags að ég hef ámálgað hvort það sé hugsanlegt að einhverju leyti að fjármögnun húsnæðislánakerfisins fari að hluta til eftir hinum gömlu formum samkomulags á þeim lágu vöxtum sem ríkisstjórnin ætlar að standa fast við. Nú er það eingöngu á umræðustigi og engar ákvarðanir þar að lútandi. Heppilegast væri auðvitað að þessi mál gætu gengið fram eins og upp var lagt með. En þetta er mikilvægt mál af minni hálfu, að þarna slitni ekki tengsl þó ekki væri nema vegna þeirra sögulegu tengsla og þess sjálfsagða sambands sem lífeyrissjóðirnir eiga að hafa við fjármögnun húsnæðislánakerfisins hér á landi. Það er kannski megináhyggjuefnið, ekki hitt með hvaða hætti þessir fjármunir finna sér leið inn í húsnæðislánakerfið eins og forsrh. gerði hér mjög vel grein fyrir áðan.
    Varðandi hlutverk Seðlabankans í húsnæðislánakerfinu þá gildir það um hlutverk hans, um það kerfi eins og efnahagsstjórnun almennt og hæstv. forsrh. drap á, að Seðlabankinn hefur kannski í auknum mæli og á að vera í auknum mæli þetta sveiflujafnandi tæki til þess að viðhalda þeim stöðugleika, þeirri lágu verðbólgu og þeim lágu vöxtum sem við búum við og ætlum að viðhalda.