Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:19:44 (707)

[16:19]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um þá taldi ég það koma til greina og ég hef ámálgað það í viðræðum við lífeyrissjóðina hvort þeir séu reiðubúnir til að ræða slíkan möguleika. Lengra er það mál nú ekki komið. Ég undirstrika enn og aftur það sem ég sagði áðan að ég tel að siðferðilegar skyldur lífeyrissjóðanna við húsnæðiskerfið í landinu séu ákaflega sterkar og eigi að vera það og þess vegna séu það út frá því sjónarhorni vonbrigði að þessi viðskipti Húsnæðisstofnunar og lífeyrissjóðanna skuli ekki hafa verið meiri en raun ber vitni á þessu ári. Það er áhyggjuefni í því sambandi.
    Varðandi hins vegar hinn þátt málsins sem auðvitað þarf ítarlegrar umræðu við og það eru vandamál húsnæðiskerfisins og þeirra sem eiga að standa skil á afborgunum þess og orða hv. þm. varðandi tillögur hans og annarra þingmanna hér í þinginu, þá vil ég láta þess getið líka að í mínu ráðuneyti er verið að vinna frv. til greiðsluaðlögunar sem tekur á þessum þáttum og raunar mörgum fleirum sem lýtur að greiðsluskuldbindingum heimilanna í landinu.