Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:21:21 (708)

[16:21]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félmrh. að það sé verið að vinna að frv. í félmrn. um almenna greiðsluaðlögun. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að það væri ekki einasta um að ræða greiðsluaðlögun vegna húsnæðislána, heldur líka vegna annarra skulda sem fólk er með á bakinu. Ég bendi á að við alþýðubandalagsmenn fluttum um þetta sérstaka tillögu hér á Alþingi á þessu kjörtímabili sem var reyndar felld af m.a. þingmönnum Alþfl. þegar það mál var tekið til umræðu í tengslum við endurskoðun húsnæðislaganna hér á síðasta eða næstsíðasta þingi.
    Hitt er líka fagnaðarefni að hæstv. ráðherra ætlar að fara í viðræður við lífeyrissjóðina. Ég skil hans orð þannig og ég mun að sjálfsögðu sem þingmaður fylgja því eftir að svo verði. Ég tel að lífeyrissjóðunum sé skylt að taka þátt í þessu máli. En það var þannig að þegar 86-kerfið var lagt niður þá kom upp óvissa í þessum málum sem nauðsynlegt er að taka á og ég mun standa að því eins og ég get hér að stuðla að því að það verði á nýjan leik farið í almennilegar viðræður við lífeyrissjóðina um þessi mál.