Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 16:25:17 (710)

[16:25]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er um hreina útúrsnúninga að ræða hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann er gjörsamlega að snúa þeim hlutum á hvolf sem ég sagði hér áðan. Í fyrsta lagi nefndi ég að það væri nauðsynlegt og það væri fyrsti valkostur að þessir fjármunir fengjust á markaði. Það hefur ekki gengið fram. Ég sagði það sem annan valkost að ef það gengi ekki þá vildi ég gaumgæfa það og skoða það hvort lífeyrissjóðirnir væru til viðræðu um að hluta til að fjármagna húsnæðislánakerfið með beinum hætti.
    Hv. þm. gerði hér lítið úr hinu félagslega sambandi og talaði um það í niðrandi tóni. Öðruvísi mér áður brá. Og það er eftirtektarverð yfirlýsing frá formanni Alþb. þegar hann gerir lítið úr og hlær að því að félagslegt samband sé á milli lífeyrissjóðanna, verðalýðshreyfingarinnar annars vegar og húsnæðislánakerfisins hins vegar þegar ekki síst er til þess stofnað og stór þáttur þess að byggja ódýrt húsnæði fyrir fólk

sem stendur höllum fæti. Það er yfirlýsing sem er eftir takandi.
    Auðvitað er ekki verið að hnika í mínum vangaveltum hér um fjármögnun húsnæðislánakerfisins eitt andartak frá 5% markinu. Það er mikilvægt mark og fyrir sömu skjólstæðinga og ég nefndi hér áðan, verkafólk í landinu, verkalýðsfélögin. Ég vil trúa því að það séu líka hagsmunir lífeyrissjóðanna í þessu landi að halda þessu vaxtastigi niðri þótt á hinn bóginn sé þeim skylt að ávaxta sitt pund eins og nokkur kostur er. En það er mikivæg yfirlýsing og eftirtektarverð hjá formanni Alþb. að hann gerir lítið úr hinum félagslegu tengslum húsnæðislánakerfisins annars vegar og lífeyrissjóðanna hins vegar, þvert á yfirlýsingu hv. þm. Svavars Gestssonar. Ætli skilin milli þeirra félaga verði nokkuð skýrari heldur en þetta?