Fjáraukalög 1994

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:03:01 (714)

[17:03]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því ef stjórnarflokkarnir ætla að fara að ræða saman um skattlagningu á fjármagn en því miður miðað við yfirlýsingar hæstv. fjmrh. í tengslum við framlagningu fjárlaga þá sé ég ekki miklar líkur á að úr því verði meira en umræður.
    Hitt, virðulegi forseti, var athyglisvert að heyra að hæstv. fjmrh. sér engin rök til þess að fara út í það að semja við lífeyrissjóðina upp á nýtt varðandi fjármögnun húsnæðiskerfisins og er nú komið hér eitt tilfelli til viðbótar, þar sem Alþfl. talar í suður en Sjálfstfl. í norður, meira að segja hér í sömu umræðunni. Hæstv. fjmrh. sagði að hann sæi ekki mun á því og því að ríkissjóður fjármagnaði Húsnæðisstofnun áfram á sama hátt og hann gerir á þessu ári. Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjmrh.: Er ríkisstjórnin búin að gefast upp á að koma þessum pappírum út á hinn almenna markað? Þýðir þessi yfirlýsing það að ríkisstjórninni sé ljóst að Húsnæðisstofnun losni ekki við þessa pappíra á 5% vöxtum? Hlýtur það ekki að vera svo, hæstv. fjmrh., að þegar ávöxtunarkrafa húsbréfa er komin upp í 5,7%, þá verða húsnæðisbréfin ekki seld með 5% ávöxtunarbréfum?