Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 17:20:21 (722)


[17:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga, sem er 3. mál þessa þings og lagt fram í upphafi þingsins á 2. fundi.
    Lánsfjárlög eru nú sem fyrr mótuð af niðurstöðum fjárlagafrv. og þeirri efnahagsstefnu stjórnvalda sem það byggist á. Í upphafi máls míns vil ég vekja athygli á nokkrum almennum atriðum sem varða stöðu fjármagnsmarkaðarins, einkum með tilliti til umsvifa ríkissjóðs. Því næst mun ég fjalla um einstök efnisatriði þessa frv.
    Eins og margoft hefur komið fram eru heldur bjartari horfur í ríkisfjármálum á árunum 1994 og 1995 og það má búast við því að ríkissjóður geti af þeim sökum dregið heldur úr lántökum sínum. Á árinu 1994 stefnir í að nýjar lántökur ríkissjóðs og aðila sem njóta ríkisábyrgðar verði um 22,1 milljarður kr. og samsvarandi fjárhæð fyrir 1995 er áætluð um 14,4 milljarðar kr. Lægri lánsfjárþörf ætti að hafa áhrif á vexti til lækkunar ef markaðurinn starfar óheftur og lántökur annarra aðila, þ.e. sveitarfélaga, heimila og atvinnufyrirtækja, aukast ekki.
    Hér að undanförnu hafa orðið miklar umræður um markmið í vaxtamálum og við vitum að ávöxtun húsbréfa hefur um nokkurt skeið verið yfir settu viðmiði og útboðum á húsnæðisbréfum Húsnæðisstofnunar hefur verið frestað fyrst um sinn. Það má því segja að einungis spariskírteini ríkissjóðs seljist nú miðað við 5% ávöxtun. Áhugi fjárfesta beinist einkum að skammtímaverðbréfum ríkissjóðs og verðbréfum til lengri tíma sem gefin eru út af öðrum aðilum, svo sem lánasjóðum og ríkisfyrirtækjum. Þá er líflegur markaður fyrir skuldabréfaútgáfu sveitarfélaga og einkafyrirtækja. Skuldabréf þessara aðila bera hærri vexti en spariskírteini ríkissjóðs. Það sem af er þessu ári lætur nærri að bæjar- og sveitarfélög hafi boðið verðbréf fyrir um 2,5 milljarða kr., opinberir sjóðir og ríkisfyrirtæki svipaða upphæð, sem og atvinnufyrirtæki í einkaeign. Alls eru þetta því um 6,5--7 milljarðar kr. og raunhæft er að ætla að verðbréfaútgáfa þessara aðila verði 10--12 milljarðar kr. á árinu. Þá má nefna að verðbréfasjóðir hafi vaxið hröðum

skrefum á árinu, eða um 60%. Útgefin hlutdeildarskírteini þeirra hafa vaxið úr 9 milljörðum kr. í ársbyrjun 1993 í um það bil 19 milljarða kr. á miðju ári 1994.
    Í umræðum um fjáraukalagafrv., sem var hér fyrr í dag og reyndar einnig í síðustu viku, hefur verið fjallað nokkuð um ECU-bréf sem boðin hafa verið til sölu og ég vil láta það koma hér skýrt fram að það hefur verið gert af tveimur ástæðum fyrst og fremst. Annars vegar þeirri að auka fjölbreytni á íslenska verðbréfamarkaðnum sem hefur verið að þróast og byggjast upp að undanförnu og hins vegar til þess að hamla gegn því að þeir sem af einhverjum ástæðum kjósa að tryggja sig gagnvart erlendum gjaldeyri eigi kost á því að kaupa slík bréf hér á landi. Ég til taka það fram að þeir vextir sem hafa fengist á þessum bréfum eru mjög samsvarandi því sem ríkissjóður fær ef um væri að ræða lán í samsvarandi mynteiningu erlendis. Þannig að ef ríkissjóður hefði ætlað að taka þessa fjármuni að láni á erlendum markaði hefðu fengist mjög svipuð kjör og fást hér á landi og það er auðvitað það sem skiptir máli þegar menn eru að vega og meta hvort vaxtakjörin séu hagstæð eða óhagstæð ríkissjóði.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, benda á að afkoma banka og annarra fjármálastofnana hefur batnað hröðum skrefum á árinu og kemur þar margt til. Rekstrarhagræðing hefur orðið, þjónustugjöld hafa verið sett á og afskriftaþörf hefur minnkað vegna batnandi afkomu atvinnufyrirtækja og eins vegna hins að smám saman hafa bankarnir getað greitt niður gömul útlánatöp sem urðu á mörgum umliðnum árum. Þrátt fyrir þetta hefur vaxtamunur almennra víxillána, lánastofnana annars vegar og skammtímaríkisverðbréfa hins vegar, fremur aukist heldur en hitt og kemur þetta m.a. fram á mynd á bls. 6 í athugasemdum með því frv. sem hér er til umræðu.
    Mig langar, virðulegi forseti, til þess að vekja næst athygli á ríkisábyrgðum, en gildi ríkisábyrgðar fyrir lánskjör og stöðu opinberra fjármálastofnana í samkeppni við þær sem eru á einkamarkaði er stöðugt að koma betur í ljós. Að undanförnu hafa opinberir fjárfestingarlánasjóðir og ríkisfyrirtæki leitað milliliðalaust eftir fjármagni á innlendum markaði og verið þannig í samkeppni við ríkissjóð um sparifé. Fjárfestingarlánasjóðir og opinber fyrirtæki hafa boðið ávöxtun sem er frá 0,3--0,6% hærri en ríkissjóður hefur miðað við. Þetta hefur að sjálfsögðu vakið spurningar um gildi ríkisábyrgðarinnar og hvernig með hana skuli fara. Mér sýnist rökrétt að stefna að því að nema ríkisábyrgðina af sjóðum og samkeppnisfyrirtækjum með því að þeim verði breytt í hlutafélög. Að öðrum kosti kemur til álita að ábyrgðin verði takmörkuð í lánsfjárlögum hverju sinni og innheimt ábyrgðargjald líkt og um erlend lán sé að ræða. Þessu til stuðnings má benda á að brátt verður lítill eða enginn greinarmunur gerður á lántökum á innlendum og erlendum markaði.
    Samkvæmt áætlun Seðlabanka Íslands hefur lánsfjáreftirspurn aukist um 2,7% eða 19,7 milljarða kr. á fyrri hluta ársins 1994, í stað 7,6% eða 51,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Og ég vek athygli á því hve miklu meira jafnvægi er á markaðnum núna en áður var. Á það ber hins vegar að líta að sjálfsögðu að gengisfelling krónunnar í lok júní 1993 hafði talsverð áhrif á reiknaða lánsfjáreftirspurn á fyrri hluta þess árs, en sé leiðrétt fyrir áhrifum hennar þá má segja að eftirspurnin hafi verið 4--5% eða hér um bil helmingi meiri á fyrri hluta ársins 1993.
    Á bls. 9 í athugasemdum með frv. er tafla um lánsfjáreftirspurn innlendra aðila, þar sem töflunni er skipt í ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili. Það er einkum tvennt sem vekur athygli í þessari töflu. Í fyrsta lagi er þar aukning á lántökum heimilanna, en lántökur þeirra jukust um 6% á fyrri helmingi ársins. Svo virðist sem lækkun vaxta á lánsfjármarkaði sl. haust hafi örvað eftirspurn heimila eftir lánsfé og kemur það glöggt fram m.a. í eftirspurn eftir húsbréfalánum. Ef litið er á heildarskuldir heimilanna lætur nærri að hver fjögurra manna fjölskylda hafi skuldað um 4,3 millj. í lok júnímánaðar 1994. Til samanburðar var þessi fjárhæð um 3 millj. kr. í árslok 1990 ef maður miðar við sama verðlag.
    Þá vekur athygli samdráttur í lántökum fyrirtækja, en hann nemur um 0,4% á fyrri hluta ársins og það gefur hugmynd um að fyrirtækin standi betur en áður og séu fremur að greiða niður skuldir sínar en að safna þeim.
    Við afgreiðslu fjárlaga 1994 var talið að nýr peningalegur sparnaður yrði um 28 milljarðar kr. á árinu en hagstæðari efnahagshorfur valda því að frjáls sparnaður gæti orðið talsvert hærri. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun Seðlabanka Íslands er talið að peningalegur sparnaður muni aukast um tæplega 35 milljarða kr. á þessu ári. Þetta er auðvitað umtalsverð breyting.
    Áætlað er að heildarsparnaður verði um 36,5 milljarðar kr. á árinu 1995 eða 8,2% af landsframleiðslu. Reiknað er með að kerfisbundinn sparnaður verði um 23,2 milljarðar kr. en hinn frjálsi um 13,4 milljarðar kr. Rétt er að leggja áherslu á að skekkjumörk við þessar áætlanir eru veruleg og því ber að skoða niðurstöðurnar með miklum fyrirvara. Þetta þekkja þeir sem fást við þessi mál, að skekkjumörk geta orðið mjög veruleg á milli ára í áætlunum Seðlabankans um sparnað á komandi tímum eins og dæmin hafa sannað, sérstaklega fyrr á árum.
    Nokkur samdráttur hefur orðið í erlendum lántökum það sem af er árinu. Erlend skammtímalán hafa dregist saman um röska 4 milljarða kr. en erlend langtímalán aukist aðeins um 1,9 milljarða kr. Á sama tíma hafa kaup innlendra aðila á erlendum verðbréfum orsakað útstreymi fjármagns sem nemur um 5,5 milljörðum kr. og talið er að sú upphæð verði heldur meiri á árinu, eins og margoft hefur komið fram í umræðum hér á hinu háa Alþingi og gefnar hafa verið skýringar á því.
    Heildarlántökur hins opinbera á árinu 1995 eru áætlaðar 54,2 milljarðar kr. og afborganir 39,8 milljarðar kr. Hrein lánsfjárþörf er þannig áætluð 14,4 milljarðar kr. eða 7,7 milljörðum kr. lægri fjárhæð en á þessu ári. Áætlað er að hrein lánsfjárþörf opinberra aðila nemi 10,5 milljörðum kr. á næsta ári samanborið við 16,4 milljarða kr. árið 1994. Minni lánsfjárþörf ríkissjóðs skýrir lækkunina að nær öllu leyti.
    Hrein lánsfjárþörf viðskiptalegra aðila, en í þeim hópi eru ríkisfyrirtæki, húsbréfadeild og fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna, er talin vera 3,9 milljarðar kr. á næsta ári samanborið við 5,7 milljarða kr. í ár. Lækkunin milli ára stafar annars vegar af minni umsvifum húsbréfadeildar og hins vegar aukinni uppgreiðslu lána ríkisfyrirtækja. Hvað varðar fyrri þáttinn ber að benda á að gerðar hafa verið breytingar á greiðslumati umsækjenda um húsbréf og hvað hitt snertir þá hafa fyrirtæki, jafnt ríkisfyrirtæki sem önnur, verið að greiða niður skuldir sínar að undanförnu.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er í sjálfu sér ekki langt eða flókið. Það er sett upp með hefðbundnum hætti og skiptist í lántökur ríkissjóðs, ríkisábyrgðir, ýmis ákvæði um lánsfjármál og loks gildistökuákvæði. Ég sé ekki ástæðu til þess hér í minni framsöguræðu að fjalla ítarlega eða nokkuð um einstaka þætti í einstökum greinum, en mun að sjálfsögðu reyna að svara almennum spurningum sem vita að þeim atriðum sem hér eru nefnd í þessum 13 eða 14 greinum frv.
    Ég vil þó benda á 5. gr., þar sem eru tvö atriði, þetta er um ríkisábyrgðir, þar sem annars vegar er um að ræða ábyrgð vegna láns sem Íþróttasamband Íslands hyggst taka til þess að taka þátt í stækkun Laugardalshallar, enda er gert ráð fyrir því að Íþróttasambandið eignist hluta í Laugardalshöllinni sem standi fyrir þessari eign sem þar myndast. Í öðru lagi er um að ræða endurnýjun á flugvél Flugmálastjórnar, en gert er ráð fyrir að sú flugvél borgi sig upp á tilteknum tíma og liggur áætlun fyrir um það af hálfu samgrn.
    Þá vil ég benda á 11. gr. en í henni er gert ráð fyrir því að Ábyrgðardeild fiskeldislána falli úr gildi 1. janúar 1995, en jafnframt er gert ráð fyrir að fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, sé heimilt að breyta útistandandi ábyrgðarheimildum í lán, sbr. 5. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins. Hugmyndin er að breyta ábyrgðunum sem nú eru vegna lána, að mig minnir þriggja fyrirtækja, beint í lán ríkissjóðs en fella niður þá fyrirgreiðslu sem hingað til hefur verið á vegum Ábyrgðarsjóðs fiskeldislána, en það voru samtök fiskeldisaðila sem lögðu til að horfið væri frá þessari starfsemi og óskir landssambandsins hafa legið fyrir. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri frá 5. júlí, þegar skýrsla lá fyrir um þetta mál, námu útistandandi ábyrgðarheimildir um 60 millj. kr. og eins og ég sagði áður eru aðilarnir þrír.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið það helsta sem fram kemur í þessu frv., en mun að sjálfsögðu skýra það eftir því sem ég get frekar hér við 1. umr. málsins, en leyfi mér að fara fram á að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.