Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:22:38 (727)

[18:22]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ítreka það að Seðlabankinn á ekki og þarf ekki að gefa út neinar yfirlýsingar um að hvenær hann kaupir einstök bréf á markaðnum. Hann á að geta gert það þegar honum hentar frá einum degi til annars og hafa jákvæð áhrif á markaðinn með þeim hætti. Það er hin skynsamlega regla.
    Hv. þm. varði stórum hluta af máli sínu til að rugla hér saman eins og ég sagði þessum þáttum, því að hagstæður viðskiptajöfnuður og það að við skulum nú afla meiru en við eyðum leiða til þess að við erum að borga niður okkar skuldir og hinu á hvern hátt hæstv. fjmrh. vill brúa fjárlagahallann í reikningum ríkisins. Þarna er um tvo gerólíka hluti að ræða. En hitt er rétt að það var enn þá alvarlegra á sínum tíma, m.a. í tíð hv. þm. sem hæstv. ráðherra þegar viðskiptahallinn var gríðarlegur, þegar þjóðarbúið sem heild var að auka skuldir sínar og á þeim tíma skyldi ríkissjóður líka vera að auka skuldir sínar erlendis. Það var mjög alvarlegt.