Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:24:00 (728)

[18:24]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur um áraraðir reynt að útskýra það í Sjálfstfl. að það er mikill munur á því hvort ríkissjóður fjármagni halla sinn innan lands eða hvort hann gerir það með erlendum lánum. Ég ráðlegg nú hæstv. forsrh. að kynna sér þessi rit og ræður hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar vegna þess að það er alveg rétt hjá þingmanninum að það er grundvallarmunur á því hvort ríkissjóður fjármagnar halla sinn innan lands eða með erlendum lánum. Það er ein af veilunum í hagstjórn núv. ríkisstjórnar að ríkissjóður hefur í auknum mæli farið að fjármagna halla sinn með erlendum lánum.
    Varðandi það atriði sem hæstv. forsrh. vék að hér fyrr að atvinnulífið væri að greiða niður skuldir sínar og þess vegna væru fyrirtækin ekki umsvifamikil á lánsfjármarkaði þá er það vissulega ánægjulegt. En þá á ríkið ekki að nota tilefnið til þess að auka umsvif sín umfram það sem fyrirtækin eru að gera. Það er einmitt þetta hlutfall á milli ríkisins og atvinnufyrirtækjanna á lánamarkaðnum sem ég var að gagnrýna hér áðan.