Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:29:59 (731)

[18:29]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að hressa upp á minni hv. þm. síðar í þessari umræðu því að þetta er morgunljóst að það streymdu peningar úr ríkissjóði og það seldust ekki bréf sem á boðstólum voru. Hitt er svo annað mál, að hv. þm. verður að gera mun á því sem stendur hér í textanum sem staðreynd máls eins og það að vextir lækka þegar lánsfjáreftirspurnin er minni. Það er það sem hér stendur. Það stendur ekkert annað. Og ef ríkið getur dregið úr lánsfjáreftirspurninni þá ættu vextir að öðru jöfnu að lækka. Það sem hins vegar er verið að segja og er kannski undirskilið er það að ef aðrir taka lán í staðinn á þessum sama markaði þá getur vel verið að vextirnir lækki ekki eins og það sjáum við í nágrannalöndunum þar sem þenslan fer af stað, þar hækka vextir, í Bretlandi, Svíþjóð og í fleiri löndum. Þetta veit auðvitað hv. þm. Hv. þm. er að koma hér aftur og aftur í ræðustól til þess að gera hlutina tortryggilega og afflytja þann texta sem liggur fyrir. Það er hann einasti tilgangur hér.