Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:34:47 (734)

[18:34]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að taka undir þá meginhugsun sem fram kom í athugasemdum mínum og ég þykist þess fullviss að hv. þm. er mér sammála um það að þetta gengur ekki svona áfram. Við vitum það öll að það eru tvö frv. sem eru mikilvægust í efnahagsmálum á hverju þingi. Það er fjárlagafrv. og það er það frv. sem við erum að ræða hér. Við getum auðvitað haft við önnur tækifæri umræður um efnahagsmál en ég hélt satt að segja að það væri viðleitni okkar allra að umræðurnar færu fyrst og fremst fram í tengslum við þau meginfrv. sem snerta efnahagsmálin. Væntanlega hafa ráðherrarnir kynnt sér það hvenær þessi frumvörp kæmu til umræðu eins og við hin í þinginu. Það vill svo til að hæstv. viðskrh. er ábyrgur fyrir Seðlabankanum, hann er líka ábyrgur fyrir reglugerð sem opnar á fjármagnsstreymi milli Íslands og umheimsins um áramótin. Ég hef ekki vikið að þeim þætti hér þó að það sé gert í grg. þessa frv. einfaldlega vegna þess að hæstv. viðskrh. er fjarstaddur. Ég hef heldur ekki vikið að ummælum hæstv. viðskrh. í síðustu viku um afleiðingar þessarar opnunar um næstu áramót vegna þess að hann er fjarstaddur. Þannig hefur fjarvera hæstv. viðskrh. afgerandi áhrif á þessa umræðu og það er ekki hægt að vísa því á bug með því að segja að einhvern tímann seinna sé hægt að tala um það og menn kunni einhvern tímann seinna að biðja um einhverja aðra ráðherra.
    Hæstv. félmrh. þurfti hins vegar að mínum dómi að vera hér sérstaklega vegna umræðunnar um fjáraukalögin sem við vorum að ræða fyrr í dag vegna þess að þar er fjallað um þá 7 milljarða sem ríkissjóður þurfti að bæta við vegna þess að Húsnæðisstofnun ríkisins gat ekki selt sína pappíra. En í þessu frv. sem hér er til umræðu er það fyrst og fremst hæstv. viðskrh. af ráðherrum Alþfl. sem við vildum tala við.