Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 18:39:34 (737)

[18:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Nú hefur umræða um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar staðið linnlaust nánast í allan dag og mundu kannski einhverjir álykta að allt sé fram komið en svo er þó ekki.
    Eitt af því sem hæstv. fjmrh. hefur sagt þegar hann hefur verið að lýsa því yfir að vextir á skammtímamarkaði mundu hækka er það að það væri forsenda og grunnur fyrir því að vextir í bankakerfinu lækkuðu. Síðast lýsti hæstv. fjmrh. þessu yfir í andsvari áðan. En hver er reyndin? Sama dag og hæstv. fjmrh. mælir fyrir frv. til lánsfjárlaga sem á að endurspegla peningastefnu ríkisstjórnarinnar þá hækkar Landsbankinn, annar ríkisbankanna, vexti á hæstu áhættuflokkum um 50 punkta eða hálft prósentustig. Þetta eru vextirnir á þá sem verst eru settir og eiga enga möguleika á að fjármagna sig annars staðar. Þetta eru skuldugustu einstaklingarnir og verst stöddu fyrirtækin.
    Þarna er peningastefna núv. hæstv. ríkisstjórnar í hnotskurn. Það er verið að hækka vextina um hálft prósentustig á þá sem ekki komast undan hávaxtastefnu bankanna sem starfa í skjóli ríkisstjórnarinnar. Þetta er eitt atriðið enn í þann sarp sem í það minnsta hefur sannfært mig um það að sú peningastefna sem núv. ríkisstjórn framfylgir er við það að hrynja.
    Síðan ræðir hæstv. forsrh. um efnahagslegt munnangur. Ég veit ekki hvernig hæstv. forsrh. ætlar að setja þessa vaxtahækkun Landsbankans í það samhengi. Það er helst að skilja á hæstv. forsrh. að Seðlabankinn eigi að halda leyndum grunnupplýsingum varðandi stöðu efnahagsmála. Að Seðlabankinn eigi helst ekkert að vera að fleipra með það hvað hann sé búinn að kaupa af til að mynda húsbréfum og um að það hafi verið tímabundin aðgerð. Þetta eru vægast sagt furðuleg ummæli hjá hæstv. forsrh. á sama tíma og við erum á Alþingi í hverju frv. á fætur öðru að reyna að gera leikreglur fjármálamarkaðarins ljósari og allt kerfið gegnsærra. Á sama tíma talar hæstv. forsrh. um munnangur, efnahagslegt munnangur, þegar seðlabankastjórar svara spurningum um stöðu þess hvað Seðlabankinn er búinn að kaupa mikið af ríkispappírum.
    Stundum á maður erfitt með að átta sig á því á hvaða tíma maður er. Þetta hefði e.t.v. getað passað inn í umræðuna fyrir 10--15 árum að það væri ætlast til þess að Seðlabankinn lægi á slíkum grundvallarupplýsingum og að seðlabankastjórar séu snupraðir af hæstv. forsrh. úr ræðustól á Alþingi fyrir það að skýra frá staðreyndum um stöðu mála, skýra frá því að Seðlabankinn hafi þurft og eigi núna ríkispappíra upp á 25 milljarða til þess að viðhalda vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið dregið rækilega fram í þessari umræðu í dag að þetta er á sama tíma og það er samdráttur á lánsfjárþörf í atvinnulífinu og engar líkur á aukinni fjárfestingu þar. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni og kemur reyndar fram í grg. með frv. til lánsfjárlaga að enn vaxa skuldir heimilanna og ekki munu skuldsett heimili eiga betra með að standa í skilum eftir að vextir á hæstu lánaflokkum hjá ríkisbönkunum hafa verið hækkaðir um hálft prósentustig. Væri gaman að heyra álit hæstv. félmrh. á þessu atriði, hvernig hæstv. félmrh. álítur að þau 20% þeirra sem hafa tekið húsbréf og eru með þau í fjögurra mánaða vanskilum eða lengri hvort þeir munu eiga

betra með að standa þar í skilum eftir að ríkisbankarnir, í það minnsta annar þeirra, en í flestum tilfellum skuldar þetta fólk á fleiri stöðum einnig, hafa hækkað þá vexti sem svo sannarlega voru drápsvextir fyrir. Ég vil krefja hæstv. félmrh. svara varðandi þetta atriði. Telur hæstv. ráðherra að þetta geri það að verkum að hann muni eiga betra með að glíma við vanskilin í húsbréfakerfinu?
    Það er því miður að koma betur og betur í ljós að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur í raun aldrei á sínum ferli náð raunverulegum tökum á vaxtamálunum og það er vægast sagt hlálegt að hlusta á hæstv. fjmrh. lýsa hér yfir hvað eftir annað að vextir í dag séu lægri heldur en þeir voru þegar fyrrv. ríkisstjórn fór frá. Hæstv. ráðherra gleymir að ræða þar um ákveðinn millikafla, þegar staðan var sú um tæplega tveggja ára skeið að vextir á skammtímamarkaði, vextir hjá þeim fyrirtækjum sem þurftu að fjármagna sig í bankakerfinu með sitt skammtímafjármagn með allt of hátt hlutfall af sínum efnahag í skammtímafjármagni, vextir hjá einstaklingunum sem stóðu í húsbyggingum voru mánuð eftir mánuð, missiri eftir missiri kringum 20%. Síðan kom hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. félmrh., og var stórhissa á því að stór hluti þeirra sem hafði tekið húsbréf væri í vanskilum. Þarf einhver að vera hissa á því þegar þannig er staðið að peningamálum að skuldsett fyrirtæki og skuldsett heimili voru missiri eftir missiri að borga 20% vexti? Ég segi 20% vexti því að fyrir þessa aðila sem fengu vísitöluhækkanir í engu upp bornar í sínu kaupi eða með sinni framleiðslu, þá voru nafnvextirnir hinir raunverulegu raunvextir.
    Virðulegur forseti. Það þarf kannski engum að koma á óvart þegar staðreyndir þessara mála eru raktar fyrir hæstv. ráðherrum, að þeir séu eilítið hvumpnir. Ég verð að segja það fyrr mína parta að það er eilítið þreytandi að hlusta á hæstv. fjmrh. hvað eftir annað lýsa því yfir í ræðum sínum um peningamál, um markaðsmál að hann einn viti, hann einn hafi skilninginn, hann einn viti hvernig þessi eðalmarkaður þróast. Ég get sagt það fyrir mitt leyti að það er mín skoðun að við hljótum hér eins og annars staðar að feta þá leið að vextir þróist á markaði. En það er hins vegar og hefur margsinnis verið bent á að þetta er langtímamarkmið og þetta er einstigi sem við erum nokkuð lengi að feta. Hæstv. ráðherrum finnst það kannski allt í lagi eins og hæstv. félmrh. gerði hér í blaðaviðtali í síðustu viku að koma síðan eftir að vextir voru búnir að vera í 20% í tvö ár fyrir þá sem verst áttu með að borga þessa háu vexti, skuldsett heimili og verst settu fyrirtækin, þá skuli hæstv. viðskrh. koma í blaðaviðtal og segja: Ja þetta var nú bara svona. Þetta var nú búið að vera árum saman fákeppnismarkaður þar sem þeir sem áttu fjármagnið skömmtuðu sér í raun vextina. En við bara sáum þetta ekki fyrr en fyrir tæpu ári síðan, segja svo þessir háu herrar í dag. Þetta er lítil huggun fyrir þá sem eru að missa húsnæðið ofan af sér í nauðungaruppboðum, eru að verða persónulega gjaldþrota. Þetta er engin huggun fyrir þá sem á síðustu árum hafa verið að leggja sparifé sitt í atvinnurekstur í þeirri góðu trú að það væri stefna stjórnvalda, stefna ríkisstjórnar Sjálfstfl. að styðja við bakið á þeim sem hefðu kjark til þess að leggja peninga í eigin atvinnurekstur. Staðreyndin er hins vegar sú að í langsamlega flestum tilfellum hefur það fjármagn brunnið upp. Þeir aðilar sitja eftir brenndir, hafa ekki kjark til þess að fara út í slíka starfsemi aftur. Og oft og tíðum að nokkru leyti brennimerktir sem vanskilamenn. Það er nefnilega svo að í hinum harða heimi viðskiptanna er það ekki þannig að menn geti fengið einhvers staðar opnaða ótakmarkaða heimild til úttektar til þess að láta enda ná saman. Það er engin listahátíð í gangi hjá þeim sem hafa annaðhvort verið að reyna að koma þaki yfir höfuðið eða byggja upp eigin atvinnurekstur. Þeir hafa orðið að horfast í augu við hinn kalda raunveruleika peningamarkaðarins sem hefur verið sá lengst af á tímabili þessarar ríkisstjórnar að menn hafa verið að borga 20% raunvexti af skammtímafjármagni. Það er einnig staðreynd að þau fyrirtæki sem ekki hafa komist út á hinn almenna markað hafa ekki haft burði til þess að selja þar verðbréf til þess að fjármagna sig, þau eru í dag að borga 12--14% vexti af sínu skammtímafjármagni. Þessa vexti var verið að hækka í dag um hálft prósentustig. Þetta er sú framtíðarsýn sem þeir Íslendingar hafa sem vildu takast á við framtíðina á þann hátt að taka þátt í atvinnustarfsemi og koma á fót eigin atvinnurekstri. Ef þeir hafa ekki silfurskeið í munni og eiga beinan aðgang að sjóðum, fjölskyldusjóðum eða öðrum sjóðum, ef þeir eiga eitthvað að ráði undir bankakerfinu, undir lánamarkaðinum, þá eiga þeir enga möguleika og það er ekki hægt með nokkru móti að ýta undir eða ráðleggja þeim aðilum sem eru að velta slíku fyrir sér að fara út í slíka starfsemi. Meðan þetta er sú peningastefna sem er við lýði þá verður engin nýsköpun. Þá rætist það sem aðilar vinnumarkaðarins eru að spá í dag, þá rætist það að fjárfestingin fer langt undir hættumörk sem hefur þær beinu afleiðingar að atvinnuleysi mun ekki minnka heldur aukast og sömuleiðis það að við höfum enga möguleika á að koma okkur upp úr þeirri hagvaxtarlægð sem við erum í í dag. Á þessu virðist ríkisstjórnin nánast ekki hafa nokkurn skilning. Það endurspeglast m.a. í fjárlagafrv. sem nú er verið að leggja fram. Þar er útgjöldum háttað án nokkurs tillits til þess hvernig þau kynnu til lengri tíma litið að virka jákvætt á efnahagslífið og skila sér eilítið margföld til baka. Það er afar fróðlegt að lesa bréf sem okkur alþingismönnum hefur nú borist frá kvikmyndagerðarmönnum og Félagi kvikmyndaleikstjóra þar sem þeir benda á að með því að skera niður framlög til Kvikmyndasjóðs er ríkisstjórnin í raun að henda því útsæði sem þar er til staðar. Þetta er atvinnustefna, þetta er peningastefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.
    Virðulegur forseti. Umræður þróuðust þannig í dag að ég flutti þá ræðu sem ég ætlaði að flytja hér um lánsfjárlagafrv. undir umræðum um fjáraukalög en þar höfðu umræður mjög sveigst inn á svið vaxtastefnunnar. Ég mun því ekki hafa þessa ræðu öllu lengri hér núna. En ég beini þeirri spurningu einnig til hæstv. fjmrh. sem ég beindi til félmrh. áðan. Hvaða áhrif telja hæstv. ráðherrar að það muni hafa að bankakerfið er núna að hækka vexti á hæstu lánaflokkum um hálft prósentustig, hækka vextina á þeim sem

komast ekki undan? Þetta er sama fólkið sem er í vanskilum með húsbréfin sín. Hvaða áhrif telja þessir hæstv. ráðherrar að þetta hafi á þá viðleitni að reyna að koma húsbréfunum í skil? Og hvernig skýrir hæstv. fjmrh. þessi viðbrögð bankakerfisins við ummælum ráðherrans þess efnis að nú sé forsenda fyrir því að lækka vexti í bankakerfinu?
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en ég vænti svara frá þeim hæstv. ráðherrum sem ég hef beint spurningum til.