Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 19:01:42 (742)

[19:01]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það liggur við að ég hafi ekki trúað mínum eigin eyrum þegar ég hlustaði á þetta andsvar hjá hæstv. félmrh. Hann var að tala um vextina 1991. Vextirnir voru reyndar háir 1991, síðari hluta ársins eftir að núv. hæstv. ríkisstjórn hafði hækkað þá og þeir héldust í þeim hæðum, ekki bara árið 1991 heldur út árið 1992 og fram í nóvember 1993 og það eru þær drápsklyfjar þeirra vaxta núverandi ríkisstjórnar sem heimilin í landinu eru að kljást við í dag og endurspeglast í stöðugri hækkun skulda heimilanna.