Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 21:13:34 (746)

[21:13]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði að koma hér upp út af athugasemd þingmannsins einmitt vegna þess að í máli annarra hafa fram komið misvísandi athugasemdir varðandi vanskilin í húsbréfakerfinu og ég vildi nota þetta tækifæri til að leiðrétta þær.
    Það sem ég var líka að koma inn á í fyrri athugasemd minni var einmitt það að við breytum möguleikum fólks þegar sett er saman á einn stað lánamöguleikinn til húsnæðisöflunar. Áður var lán sem fékkst hjá Húsnæðisstofnun lágt og það þurfti að afla fjármagns í bönkum til viðbótar en þegar búið er að samræma þetta lán í eitt gott allt að 70% lán þá hefur það líka sýnt sig að vanskil halda áfram. Auðvitað er tekjusamdráttur hjá fólki og við Íslendingar gerum gjarnan út á toppinn. En við eigum kannski dálítið erfitt með að sjá hver hin rétta mynd er vegna þess að freistingin er sú að þegar búið er að koma sínum málum í skikk með þeirri góðu fyrirgreiðslu sem sett er á laggir þá er e.t.v. boginn spenntur umfram greiðslugetu af því að þegar þú ferð og kaupir kannski bílinn sem þig langar í til viðbótar þá var ekkert spurt um greiðslumat þar. Reynsla Húsnæðisstofnunar er sú að það er gert greiðslumat yfir þær skuldir sem fyrirhugaðar eru vegna húsnæðisöflunar. Ef freistingin er sú að fara í mjög mikla viðbót, sköffun á öðru, svo við notum slæmt orð, þá er ekki óskað eftir greiðslumati á því. Það er mjög stór hluti vanskila vegna viðbótarfjárfestinga eftir að greiðslumat er gert og svo það að Húsnæðisstofnun er liprari lánastofnun en aðrar og fer ekki að láta í sér heyra fyrr en, eins og fram hefur komið, á fjórða mánuði. Þannig að þetta eru líka skýringar þess hvers vegna vanskil í húsbréfakerfinu verða svo augljós þegar svona stendur á.