Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 21:15:47 (747)

[21:15]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir hvert orð sem hv. þm. sagði. Mig langar að bæta því við að það sem hún var að lýsa er sá dæmigerði íslenski hugsunarháttur að þetta reddast einhvern veginn og fólk spennir bogann til hins ýtrasta. Hér hefur efnahagsástand verið með þeim hætti að það hefur borgað sig að eyða. Hugsunarhátturinn hefur ekki breyst í samræmi við það breytta efnahagsumhverfi sem við lifum í núna. Það vekur þá spurningu hvort við þurfum ekki að fræða fólk miklu betur en við gerum um efnahagsmál, um rekstur heimila hreinlega og öflun húsnæðis og svo framvegis, hvort sem við byrjum í skólakerfinu eða annars staðar.