Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 21:17:43 (748)

[21:17]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum fyrr í dag um frv. til lánsfjárlaga þá er hér um að ræða aðra meginstoðina í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og sýnir frv. áætlun um hina raunverulegu stöðu.
    Forustumenn ríkisstjórnarinnar með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar hafa lagt á það kapp að draga upp glansmynd af stöðu efnahags landsmanna og stöðu fjármála. Það er grunur minn að það helgist frekar af þeim atburðum sem fram undan eru á komandi vetri, alþingiskosningum, en raunsönnu mati á stöðunni eins og hún er. Þessi mynd hefur verið dregin upp í stefnuræðunni, hún hefur verið dregin upp í umræðu um stöðu ríkisstjórnarinnar, hún hefur verið dregin upp í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina, sem fór fram í gær, hún hefur verið dregin upp í fjárlagaumræðunni og það er reynt að draga hana upp líka í umræðunni um lánsfjárlög. Það er lögð áhersla á hagstæðan viðskiptajöfnuð, lága vexti og markaðslausnir í peningamálum, lága verðbólgu og betri afkomu fyrirtækjanna. Það er lagt ofurkapp á að viðhalda þessari mynd.
    En ég held að þessar umræður í dag og þeir atburðir sem gerst hafa í dag hafi leitt í ljós að þessar fullyrðingar allar standa á brauðfótum þó vissulega séu einstaka þættir í efnahagsþróuninni jákvæðir. Það má þó geta þess og ekki gleyma því að lág verðbólga stafar m.a. af því að það er samdráttur í þjóðfélaginu og fjárfesting hefur verið í algeru lágmarki eins og ég kem að síðar.
    Hins vegar er það alveg dæmalaust að þegar einhverjir aðilar í þjóðfélaginu, hvort sem þeir eru innan þings eða utan, dirfast að segja eitthvað sem brýtur í bága við þessa glansmynd og ef staðan eins og hún er í rauninni er dregin fram í dagsljósið þá tryllist hæstv. forsrh. Hann trylltist í dag í umræðum vegna þess að uppi í Seðlabanka hefur verið talað á einhvern annan hátt en passar fyrir hæstv. ráðherra í Alþingi. Það er náttúrlega alveg yfirgengilegt að forsrh., sem er nýbúinn að bera fram frávísunartillögu um vantraust á hann sjálfan og ríkisstjórn hans og fá hana samþykkta á Alþingi og berja sína menn til hlýðni við þá tillögu, tryllist ef utan þings er talað öðruvísi en honum passar. Ég vona að þessi orð mín komist til skila til hæstv. forsrh. því ég er satt að segja steinuppgefinn á því eins og aðrir hv. þm. að reyna að draga ráðherra til að vera við umræður um efnahagsstefnuna í þinginu.
    Í þessari dæmalausu ræðu sem hæstv. forsrh. hélt í dag og talaði um efnahagslegt munnangur segir hann, með leyfi forseta: ,,Á hinn bóginn verður auðvitað að gera þær kröfur til Seðlabankans og þeirra sem koma fram í umboði hans, nafni hans, að þeir gæti varúðar í ummælum sínum.``
    Enn fremur segir hann, með leyfi forseta: ,,Frægt var nú þegar Volcker,`` --- þetta er með fyrirvara --- ,,fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, fékk hálsbólgu og þá lækkuðu bréf á mörkuðum. Þá eru menn auðvitað komnir út í öfgar. Það er verra þegar ógætileg ummæli fara út um hálsinn á viðkomandi. Þá er líklegra að það hafi hættuleg áhrif.``
    Þetta er nú ekki af málfundi í skóla heldur er þetta úr ræðu hæstv. forsrh. í dag. Allt vegna þess að honum líkar ekki ummæli sem höfð eru uppi í Seðlabanka og passa ekki við þá mynd sem hann er að reyna að draga upp af efnahagslífi þjóðarinnar. En nóg um það.
    Það hefur verið mikið rætt undanfarið um stöðu einstaklinganna í þjóðfélaginu og ég held að það sé nauðsynlegt í þessari lánsfjárlagaumræðu að beina kastljósinu að þeim. Vextirnir sem þessir einstaklingar þurfa að borga voru að hækka í dag. Það hefur verið rætt nokkuð um stöðu mála í húsbréfakerfinu í þessu sambandi. Hv. 4. þm. Reykn. kom inn á þau mál áðan í andsvari um vanskilin í húsbréfakerfinu. Hið rétta í þeim málum er að höfuðstóllinn í húsbréfakerfinu eða höfuðstóll útlána er 57 milljarðar kr. Vanskil nema um 1 / 4 af höfuðstólnum og það sem gjaldfallið er eru 700 millj. kr. og það er æðimikil upphæð, það sem gjaldfallið er í afborgunum og vöxtum. Og þessi upphæð er gjaldfallin þrátt fyrir það að þessi lán séu til langs tíma og greiðslubyrðin af þeim eigi að vera léttbærari þess vegna og vextirnir lægri heldur en á almennum markaði. Það komu einnig í ljós í heimsókn félmn. til Húsnæðisstofnunar í morgun þær upplýsingar að síðan greiðsluerfiðleikalán voru leyfð hafa 1.200 manns sótt um slík lán í gegnum stofnunina og langar biðraðir eru í Húsnæðisstofnun um að fara yfir þær beiðnir ,,vegna þess að þessar umsóknir eru flóknar og mikið verk að afgreiða þær``, svo ég noti orð starfsmanna stofnunarinnar.
    Ég hef ekki á reiðum höndum upplýsingar um vanskil einstaklinga í bankakerfinu en það er alveg ljóst að þau eru veruleg og bankakerfið á í verulegum vanda vegna aukinna vanskila.

    Það kom einnig fram í dag í viðræðum við Húsnæðisstofnun um húsbréfakerfið að ávöxtunarkrafan hefur farið síhækkandi, hefur hækkað á degi hverjum núna undanfarið þannig að allt bendir þetta í sömu átt, því miður. Þessi glansmynd af efnahagsmálunum sé því miður ekki eins mikil glansmynd og hæstv. ráðherrar vilja vera láta. Sannleikurinn er auðvitað sá að Seðlabankinn hefur teygt sig fram á ystu nöf við að halda vöxtum niðri og hefur keypt bréf af ríkissjóði, húsnæðisbréfin, upp á 7 milljarða kr. á þessu ári. Reiknað er með að Húsnæðisstofnun þurfi að selja húsnæðisbréf upp á 9 milljarða kr. á næsta ári og er alls óvíst og ekki búið að gera neinar tillögur um það í stofnuninni hvernig verður farið að því að bjóða þessi bréf út með árangri á almennum markaði.
    Það hefur sýnt sig hér í umræðum í dag að það eru að koma efasemdir í einstaka ráðherra um að þessi grundvallarþáttur efnahagsstefnunnar, markaðslausnirnar, standist. Hæstv. félmrh. talaði um það í umræðum í dag og var haft eftir honum í kvöldfréttum í kvöld að hann hygðist taka upp viðræður við lífeyrissjóðina um fjármögnun á gamla mátann því að hann væri þó þetta gamaldags enn þá, svo að ég noti ummæli sem höfð voru eftir honum í fréttum. Ég hygg að hæstv. félmrh. sé farinn úr húsinu en það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. á þessu eða hvort hann heldur að þetta beri árangur. ( Gripið fram í: Það var gert í dag, þingmaðurinn var bara ekki við.) Já, þá mun ég fletta upp í ræðu þingmannsins því að ég þurfti að bregða mér hér af vettvangi í dag og mun þá ekki tefja tímann með fleiri fyrirspurnum um það efni. Ég hef aðgang að því.
    Það eru fleiri hættumerki varðandi efnahagsmálin og fjármálin sem við verðum að taka tillit til þegar þessi mál eru rædd í heild sinni. Það er alls óvíst hvað gerist um áramótin þegar fjármagnsflutningar úr landi verða endanlega opnir. Það bendir ekkert til þess enn þá að það verði kúvending í erlendum fjárfestingum hér á landi þannig að það náist einhver jöfnuður í þessu efni. Það er alveg rétt að það hefur komið fram hér í umræðum að það hefur verið reiknað með því að 8 milljarðar muni flytjast úr landi núna fyrsta árið sem þessir fjármagnsflutningar eru opnir. En jöfnuður kemst því aðeins á að áhugi erlendra fjárfesta á fjárfestingum hér á landi vakni en því miður bendir ekkert til þess á þessari stundu að svo verði þó að vonandi rætist þar úr því að ég tel eðlilegt að það sé reynt að laða erlendar fjárfestingar að í öðru en þá sjávarúvegi en það hefur verið nokkurn veginn pólitísk samstaða um að takmarka fjárfestingar útlendinga í þeirri atvinnugrein.
    Eins og ég sagði er fjárfesting fyrirtækja hér á landi lág. Það kemur fram að hún er 7,5% af landsframleiðslu hér miðað við 10% í nágrannalöndunum. Það verður hins vegar ekki betur séð á þessu lánsfjárlagafrv., eins og fram hefur komið, en að ekki sé reiknað með því að fyrirtæki taki lán í auknum mæli á næsta ári. Hins vegar er reiknað með því og það kemur fram í forsendum fjárlagafrv. að ætlunin er að einkaaðilar taki í auknum mæli við fjárfestingum á næsta ári þannig að þeim er ætlað hvort tveggja í senn að greiða niður skuldir og fjárfesta. Reiknað er með að það verði alger kúvending á næsta ári í þessu efni ef það á að takast að halda atvinnustiginu svipuðu og það er núna.
    Ég held að það séu æðimargir lausir endar í þessari efnahagsstefnu og hún sé því miður ekki eins rakin og hér hefur verið sett fram í umræðu þráfaldlega af hæstv. ráðherrum. Það hefur verið lagt ofurkapp á að viðhalda því að kreppan sé liðin hjá. Vonandi er hún liðin hjá. Ég er ekki að óska eftir áframhaldandi kreppu, síður en svo. (Gripið fram í.) En ég held samt, hæstv. ráðherrar, og hæstv. fjmrh., þó hann ókyrrist nú nokkuð í sæti sínu, að það verði að draga upp rétta mynd og raunsæja af því ástandi sem er í efnahagsmálum landsmanna. Það er ekki við hæfi að fyllast fúkyrðum eins og hæstv. forsrh. þó að einhverjir aðilar í þjóðfélaginu tali öðruvísi en honum passar þessa stundina. Ég er ekki að ásaka hæstv. fjmrh. fyrir slíkt. Hans málflutningur hefur verið málefnalegur í þessu máli og öðrum, en ég held eigi að síður að það sé mikil nauðsyn á því að draga upp rétta mynd og raunsæja af efnahagsástandinu. Því meiri líkur eru til þess að ráðin verði bót á þeim vandamálum sem við er að glíma.